Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fyrstu þríburarnir í fjögur ár

02.04.2021 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: Hanna Björk Hilmarsdóttir
Í gær fæddist þeim Hönnu Björk Hilmarsdóttir og Arnari Long Jóhannssyni þríburar. Börnin, tveir drengir og ein stúlka, fæddust eftir þrjátíu og þriggja vikna meðgöngu en Hanna komst að því að hún gengi með þríbura í snemmsónar.

„Það er mikið af tvíburum í fjölskyldunni minni þannig að við vorum búin að grínast með það lengi að þetta væru pottþétt tvíburar og við töluðum alltaf um tvíburana. Svo í sónarnum sé ég strax tvo sekki og segi við lækninn: „Eru þetta tvíburar?“ Hann skoðar aðeins betur og segir síðan: „Nei, þetta eru þríburar,“ segir Hanna.

Fyrir eiga Hanna og Arnar einn strák sem var rúmlega eins árs þegar þau fengu tíðindin.

„Þetta var mikið sjokk. Við tókum sjokkið út á sitthvorn háttinn. Ég fór að hágráta og hann fór eiginlega bara að hlæja. En svo þegar við vorum búin að vinna úr þessu öllu þá eru þetta bara frábærar fréttir og við hefðum ekki viljað hafa þetta neitt öðruvísi,“ segir Hanna en meðgangan gekk vonum framar.

„Það verður brjálað að gera. Við erum sem betur fer búin að stækka við okkur um bíl og húsnæði þannig það er pláss fyrir alla,“ segir hún.

Mynd með færslu
Mynd með færslu
 Mynd: Hanna Björk Hilmarsdóttir

Öllum heilsast vel en börnin voru tekin með keisaraskurðu þar sem fjölburameðgöngum og fæðingum fylgir talsverð áhætta.

„Fæðingin gekk eins og í sögu. Ég var stressuð en þetta gekk bara alveg frábærlega og þau eru öll að braggast rosa vel á vökudeildinni,“ segir Hanna.

Þið eruð alveg tilbúin í að vera með fjögur kríli á heimilinu?
„Já, já. Ég held að við förum létt með það, segir ég núna,“ segir Hanna og hlær. „Þetta verður virkilega krefjandi en ég held að það muni skila sér margfalt til baka.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hanna Björk Hilmarsdóttir
Mynd með færslu
 Mynd: Hanna Björk Hilmarsdóttir
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, dagskrárgerðarkonna, og Eiríkur ingi Böðvarsson, kvikmyndagerðarmaður, hafa fylgt fjölskyldunni eftir fyrir heimildaþátt sem sýndur verður á RÚV.
ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV