Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Aflétta refsiaðgerðum gegn Alþjóða sakamáladómstólnum

epa08987648 US Secretary of State Antony Blinken introduces US President Joe Biden (not pictured) at the US State Department in Washington, DC, USA, 04 February 2021. Biden announced that he is ending US support for the Saudi's offensive operations in Yemen.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EFE - EPA
Bandarísk stjórnvöld hafa aflétt refsiaðgerðum þeim, sem ríkisstjórn Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, innleiddi gagnvart aðalsaksóknara Alþjóða sakamáladómstólsins í Haag. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá þessu í dag. Segir hann núverandi stjórnvöld aflétta refsiaðgerðunum þar sem þær séu hvort tveggja ranglátar og gagnslausar.

Í fyrra tilkynnti forveri Blinkens, Mike Pompeo, að aðalsaksóknari dómstólsins, hin gambíska Fatou Bensouda, fengi ekki vegabréfsáritun til Bandaríkjanna og að henni væru óheimil hvers kyns viðskipti og fjármálagjörningar þar í landi.  Það gilti einnig um nokkra lykilstarfsmenn saksóknaraembættisins.

Reiði vegna rannsóknar á stríðsglæpum Bandaríkjamanna og Ísraela

Ástæðan er sú að 2017 hóf Bensouda formlega rannsókn á meintum stríðsglæpum í Afganistan, sem nær ekki aðeins til talibana og afganskra stjórnarhermanna, heldur líka til bandarískra hermanna í landinu.

Þá jók það enn á reiði Trump-stjórnarinnar, þegar Bensouda og Alþjóða sakamáladómstóllinn ákváðu að þau hefðu hvorttveggja lögsögu og fyllstu ástæðu til að hefja rannsókn á mögulegum stríðsglæpum Ísraela í Palestínu, en Ísraelar viðurkenna ekki lögsögu dómstólsins frekar en Bandaríkjamenn.

Enn ósáttir við rannsóknirnar en kjósa samstarf frekar en refsingar

Blinken segir í yfirlýsingu sinni að Bandaríkjastjórn sé enn „afar mótfallin" báðum fyrrnefndum rannsóknum dómstólsins. „Við teljum hins vegar vænlegra að koma efasemdum okkar og áhyggjum af þessum málum á framfæri með virkum samskiptum við alla sem hlut eiga að máli, en með innleiðingu refsiaðgerða."