Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tugir skikkaðir á sóttvarnahús - flestir án mótmæla

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Nokkur viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli í dag en síðdegis lentu tvær flugvélar frá löndum þar sem teljast til hááhættusvæða. Stór hluti farþeganna fór með rútu í sóttkvíarhús. Einum þeirra blöskrar hversu þétt var setið í rútunni. Yfirlögregluþjónn segir flókið að ganga úr skugga um að vottorð séu ekta.

 

Rauðir lokunarpóstar

Á miðnætti tóku gildi nýjar reglur sem skylda fólk sem dvalið hefur í löndum sem Sóttvarnastofnun Evrópu metur dökkrauð til að dvelja í sóttkvíarhúsi í fimm daga eftir komuna til landsins. „Fyrirvarinn var stuttur en við erum orðin vön því síðasta árið að afgreiða hlutina hratt og breyta verkferlum.“

Fjórar vélar hafa lent á Keflavíkurflugvelli það sem af er degi, klukkan þrjú lenti vél frá Amsterdam og skömmu síðar vél frá Stokkhólmi, en bæði svæðin teljast háhættusvæði. Um 70 voru í hvorri vél. Von er á tveimur vélum í kvöld, önnur þeirra er frá Póllandi sem er líka eldrautt á kortinu. Þegar farþegarnir frá Amsterdam stigu inn í komusalinn í Leifsstöð blöstu við þeim rauðir lokunarpóstar. Hópur lögreglumanna, öryggisvarða og starfsmanna Ísavía fóru yfir pappíra. Úr vélunum frá Amsterdam og Stokkhólmi fóru tugir í sóttvarnahús og von er á fjölda frá Póllandi í kvöld. „Fólk veit almennt af þessu ekki allir, einhverjir hafa verið ósáttir í dag en samt farið,“ segir Sigurgeir. 

Þó flestir hafi farið með rútu er líka leyfilegt að fara á eigin bíl á Fosshótel í Reykjavík, sem gegnir hlutverki sóttvarnahúss. Lögregla hefur þá eftirlit með því að fólk skili sér þangað. 

Blöskraði fjöldinn í rútunni

Einn af þeim sem kom frá Amsterdam í dag segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar, fyrir ferðina, einungis lesið um reglurnar í fjölmiðlum. Honum ofbauð hversu margir voru í rútunni sem ferjaði fólk á hótelið. „Þegar maður kom út af flugvellinum var bara mörkuð leið eins og í rétt, út í rútu, ekkert annað hægt að fara en manni hætti að lítast á blikuna þegar það voru komnir yfir þrjátíu manns,“ segir Heimir F. Viðarsson.

Þurfa að kanna hvaðan fólk kemur

Það er ekki nóg að horfa til litakóðunarkorts Sóttvarnastofnunar Evrópu þegar tekin er ákvörðun um það hver fer hvert. Í vélum frá eldrauðum svæðum geta verið tengifarþegar, þeir þurfa ekki í sóttvarnahús. Að sama skapi geta í vélum frá öðrum svæðum verið tengifarþegar sem eru að koma frá eldrauðu svæðunum. Um 20 slíkir voru um borð í morgunvélunum frá London og Frankfurt. Lögreglan spyr fólk út úr og skoðar bókanir til að ganga úr skugga um hvaðan það er að koma. 

Snúið að eiga við vottorðin

Þeim fjölgar stöðugt sem geta framvísað vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu. Frá deginum í dag fara þeir líka í skimun á landamærunum. Eftir að hafa fengið út úr henni eru þeir frjálsir ferða sinna. Það getur reynst flókið að ganga úr skugga um hvort vottorðin eru ekta. „Það er ansi snúið að eiga við vottorðin, bæði bólusetningarvottorðin og vottor um fyrri sýkingu því þau eru svo margskonar og koma frá svo mörgum aðilum en okkar starfsfólk er vant bæði að fylgjast með atferli fólks og skoða pappíra,“ segir Sigurgeir. 

Lögreglu fundust vottorð þriggja farþega sem komu til landsins í dag ósannfærandi, til skoðunar er að vísa þeim úr landi. 
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV