Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

SÍNE harmar að skólagjaldalán verði ekki hækkuð

Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Henry - Burst
Stjórn Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) lýsir vonbrigðum yfir því að hámark skólagjaldalána námsmanna verði ekki hækkað með nýjum úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna fyrir árin 2021 til 2022.

Því liggi fyrir að upphæð slíkra lána dugi ekki fyrir stóran hluta námsmanna í Bretlandi og Bandaríkjunum. Það séu tvö af þremur vinsælustu löndum meðal Íslendinga sem leiti sér menntunar utan landsteinanna.

Í yfirlýsingu SÍNE segir að barist hafi verið fyrir varnagla í úthlutunarreglum sem tryggði að ef gengissveiflur yrðu miklar þyrfti stjórn sjóðsins að kanna hvort námsmenn erlendis ættu rétt á staðaruppbót vegna gengisveikingar krónunnar.

Dapurlegt sé að menntamálaráðherra hafi ekki séð sér fært að sinna því ákalli.

SÍNE fagnar því að ráðherra sé að skoða hækkun framfærslu námsmanna en að athyglisvert sé að sú ákvörðun sé ekki tilbúin þegar úthlutunarreglur eigi að liggja fyrir. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV