Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir vel hafa gengið á sóttvarnarhóteli fyrsta daginn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áslaug Ellen G. Yngvdóttir annar umsjónarmanna sóttkvíarhótels Reykjavíkur segir þá farþega sem skikkaðir eru til dvalar þar vera skilningsríka, enginn hafi sýnt mótþróa enda viti fólk að þetta þurfi að gera.

Áslaug Ellen segir sextíu hafa komið í hús í dag og að von sé á fjölmennum hópi frá Póllandi upp úr klukkan ellefu í kvöld. Hún kveðst hafa búist við meira öngþveiti en að vel hafi gengið.

Fyrir liggi hvernig bregðast skuli við ef einhver ákveður að yfirgefa sóttkvíarhótelið. „Við erum náttúrulega bara Rauði krossinn, við erum ekki lögreglan. Við látum lögreglu vita og það er sektað.“

Fær fólk að fara um allt hús eða þarf það að vera inni á herbergjum?

„Það verður að vera inni á herbergjum, þetta er sóttkví og við vitum ekki hverjir eru smitaðir. Þetta er ekki eins og Lind, þar sem við vitum að allir eru smitaðir. Smitin gætu leynst á hæðunum og við viljum ekki fá sýkingu þangað inn.“

Lind er sóttvarnarhúsið við Rauðárárstíg. Áslaug segir að fólki beri að hafa samband við starfsfólkið ef það þarf að fara út af herbergjunum. Komi upp smit er fólk flutt á Lind eða komið í einangrun annars staðar.