Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rýming gekk vel eftir góðan dag við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rýming gosstöðvanna í Geldingadal hófst um tíuleytið í kvöld og lauk um miðnætti. Opnað verður fyrir aðgengi almennings á ný klukkan sex í fyrramálið en lögregla og björgunarsveitarfólk verður á vakt við gosstöðvarnar í nótt.

Björgunarsveitarmenn í Þorbirni í Grindavík segja hlutina hafa gengið vel fyrir sig á gosstöðvunum í dag. Þeir þurftu þó að fara í tvo sjúkraflutninga vegna minniháttar óhappa, auk þess sem aðstoða þurfti nokkra uppgefna göngugarpa við að komast að bílum sínum og til byggða.

Þá bættu þeir merkjum á gönguleiðirnar að gosinu í Geldingadal og fjölguðu stikum til að auðvelda fólki gönguna. Fleiri bílastæði voru einnig afmörkuð en björgunarsveitarfólk víðsvegar að af landinu hefur aðstoðað Þorbirninga og staðið með þeim vaktina á og umhverfis gosstöðvarnar.

Rýming gekk vel - allt að 20 manns vakta svæðið í nótt

Rýming svæðisins hóst klukkan tíu í kvöld og varðstjóri lögreglu á vettvangi segir hana hafa gengið vel. Í samtali við fréttastofu laust fyrir miðnætti sagði hann síðustu gosferðalangana vera að tínast niður á veg. Um tuttugu manns verða á vakt við gosstöðvarnar í nótt, þrír til fimm frá lögreglu og tólf til fimmtán frá Landsbjörgu, en aðgangur að gosinu er óheimill almenningi til klukkan sex í fyrramálið.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir