Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Pakistönsk tengdafjölskylda fær ekki vegabréfsáritun

Mynd með færslu
 Mynd: Ásdís Virk Sigtryggsdóttir
Umsókn pakistanskrar tengdafjölskyldu íslenskrar konu um vegabréfsáritun til Schengen og þar með til Íslands var hafnað í dag. Ástæðan sem gefin er, er að álitið sé að mikil hætta er talin á að fólkið gerðist ólöglegir innflytjendur og ákvæði að snúa ekki til heimalandsins.

Höfnunin kemur frá sendiráði Danmerkur í Pakistan sem fer með málefni Íslands þar í landi.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu Ásdísar Virk Sigtryggsdóttur í dag, en hún kveðst í samtali við fréttastofu ætla að ræða við Útlendingastofnun eftir páska.

„Þetta er afgreitt eins og þau hafi verið að biðja um að komast til Danmerkur,“ segir Ásdís.

Í röksemdum danska sendiráðsins segir að Pakistan tilheyri hópi þeirra ríkja þaðan sem borgarar eru almennt álitnir sækjast sérstaklega eftir að leita hælis í Danmörku eða öðrum ríkjum Schengen-svæðisins.

Ásdís og Usman Virk eiginmaður hennar eignuðust sitt annað barn, dóttur í nóvember síðastliðnum og fjölskylda hans er spennt fyrir að fá að hitta hana.

Hún segir að bæði hafi þau hjónin og tengdafólkið í Pakistan fyllt út fjölda eyðublaða, sent inn gögn og greitt töluverðar fjárhæðir til að gera heimsóknina mögulega.

„Þau þurftu að borga allskonar aukagjöld og gera fullt af hlutum sem voru ekki endilega nauðsynlegir en kostuðu fullt af peningum, en þau gerðu það möglunarlaust, því þetta var jú tækifærið þeirra til að koma og hitta okkur,“ segir í færslu Ásdísar.

„Aldrei var nefnt að þetta gæti orðið niðurstaðan,“ sagði hún í samtali við fréttastofu. Hún segir ekkert nema uppruna fólksins og húðlit hafa ráðið niðurstöðunni, ekkert tillit hafi verið tekið til aðstæðna þess enda ekkert sem bendi til að þau ætli ekki að snúa heim aftur.

Hún kveður niðurstöðuna vera ömurlega, ómanneskjulega og ómannúðlega. „Þetta er gert í okkar nafni, með okkar samþykki, í umboði okkar dómsmálaráðuneytis.“ 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV