Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mygla í grunnskólanum á Kleppjárnsreykjum

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Nokkrir nemendur grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum hafa sýnt einkenni sem mögulega má rekja til myglu. Dæmi eru um að foreldrar hafi fært börn sín í annan skóla af þeim sökum. Davíð Sigurðsson sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð staðfestir að veruleg rakavandamál séu í skólahúsinu.

Frá þessu er greint á vef Skessuhorns og að skýrsla verkfræðistofunnar EFLU um rakavandamál í skólanum hafi verið kynnt byggðaráði Borgarbyggðar í gær.

„Þetta er svört skýrsla um ástand húsakosts á Kleppjárnsreykjum og þar hefur mygla verið greind. Það er í mínum huga ljóst að grípa verður til tafarlausra aðgerða,“ segir Davíð í samtali við Skessuhorn.

Fyrr í vetur keypti sveitarstjórn færanlegar skólastofur til að setja upp á Kleppjárnsreykjum svo forða megi nemendum úr sýktu húsnæði. Skessuhorn kveðst ekki hafa fengið skýrslu EFLU í hendur og hún hafi ekki fylgt með fundargerð byggðaráðs.

Í bókun segir að sveitarstjóri skuli undirbúa kynningu á aðgerðum fyrir starfsfólki og foreldrum grunnskólabarnanna. Jafnframt að umsjónarmanni eignasjóðs sé falið að meta hvaða endurbætur húsnæðið þurfi til frambúðar og hvað það kosti. Það mat skuli lagt fram á næsta fundi byggðaráðs.