Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Illnauðsynleg eða ólögmæt frelsissvipting?

Skiptar skoðanir eru á meðal þingmanna hvort það standist lög að skikka komufarþega frá áhættusvæðum í sóttvarnahús. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum dómsmálaráðherra segir aðgerðirnar í besta falli á gráu svæði en formaður Flokks fólksins segir aðgerðir stjórnvalda á landamærunum ekki ganga nógu langt.

Formaður lögmannafélags Íslands sagði í hádegisfréttum að aðgerðin væri gríðarleg frelsisskerðing og býst hún við að látið verði reyna á lögmæti hennar fyrir dómstólum mjög fljótlega.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur efasemdir um lögmæti reglugerðarinnar sem birt var í vikunni. „Ég hef nefnt það að þetta væri í besta falli á gráu svæði svona lögfræðilega að gera það en þess utan er þetta kannski ekki í samræmi við það meðalhóf sem við viljum sjá í þessum aðgerðum. Þetta er klárlega frelsissvipting. Svo á nú eftir að koma í ljós hvernig þessum aðgerðum verður framfylgt hérna. Hvort að menn eru að njóta jafnvel minni réttinda en gæsluvarðhaldsfangar sem hafa þó rétt til þess að komast út úr húsi, komast undir bert loft nokkrum sinnum á sólarhring.“

 Mikilvægast að fólk geti leitað réttar síns

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir augljóst að það orki tvímælis að skikka komufarþega í sóttkvíahús. Aðgerðirnar séu drastískar og hún voni að ríkisstjórnin hafi gengið úr skugga um að fyrir þeim sé lagagrundvöllur.

Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir að það hafi legið fyrir frá upphafi að sóttkví feli í sér frelsisssviptingu. Sóttkvíarhúsin feli í sér víðtækari frelsisskerðingu. Mikilvægast sé að fólk geti leitað réttar síns. „Allir eiga rétt á að fara fyrir dómara ef þeir neita að gangast undir slíkt og það er bara gott ot rétt í réttarríki að slíkt verði gert.“

Ef svo kemur til að þetta fari fyrir dómara og dómur úrskurðar að þetta megi ekki. Hvað gerist þá? „Þá bara segir stjórnarskráin að þá fái fólk frelsi sitt aftur og á rétt á skaðabótum,“ segir Jón Þór.

Illnauðsynlegar aðgerðir

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar sýnir aðgerðunum skilning. Hann segir þær illnauðsynlegar þótt í þeim felist ákveðin frelsissvipting og á það beri að líta að þær séu gerðar til þess að skapa almennt frelsi fyrir fólkið í landinu. Hins vegar hefði verið eðlilegra að Alþingi hefði fjallað um málið áður til að styrkja lagagrundvöll þeirra.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, telur hins vegar að ekki sé nógu langt gengið. „Og ég segi bara, lögmæti þessara aðgerða sem verið er að draga í efa, hvort að fólk eigi heima í sóttvarnahúsi og meðalhóf og öll sú umræða, það á náttúrlega bara að sturta henni niður. Það á ekki einu sinni rétt á sér. Fyrir utan það að þetta fólk sem er að fara ferðast sem ferðamenn og skoða eitthvað Geldingagos, það á náttúrlega bara að vera heima hjá sér í heimsfaraldri. Það er nú ekki flóknara en það.“