Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Dreymandi fegurð

Mynd með færslu
 Mynd: Salóme Katrín - Water

Dreymandi fegurð

01.04.2021 - 12:00

Höfundar

Water er fimm laga stuttskífa eftir tónlistarkonuna Salóme Katrínu. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Þessi plata vakti að ósekju nokkra athygli á síðasta ári, kannski fyrst og síðast fyrir það hversu fullbúin hún er. Hljómar eins og þriðja eða fjórða plata viðkomandi fremur en frumburður. Salóme er frá Ísafirði og er 25 ára gömul en hóf þó ekki að flytja eigin tónlist fyrir almenning fyrr en árið 2019. Það er Baldvin Hlynsson sem tók upp plötuna ásamt því að koma að útsetningu laga en hljóðblöndun og tónjöfnun hennar var í höndum Magnúsar Árna Øder Kristinssonar.

Þeir Magnús og Baldvin tryggja að hljómur er með eindæmum góður, lögin eru í senn djúp og tær og hreinlega leika við eyrun. Tónlistin sjálf er þá ansi frambærileg verður að segjast. Hún er vissulega undir ríkum áhrifum frá snillingum á borð við Juliu Holter og Reginu Spektor og einnig getum við hent Joönnu Newsom og Aldous Harding í hræruna. En seint verður samt sagt að Salóme sé einhver hermikráka þó að þetta sé skapalónið. Líkt og téðar listakonur leikur Salóme sér að samspili popps og klassíkur; þetta er þjóðlagakennt upp að vissu marki en undir líka nútímatónlist af epískara taginu. Platan hefst á „The End“ (vel spilað), lag sem sem svona dúar áfram, svífur um í fallegu reiðileysi og sterk og túlkandi rödd Salóme leiðir það áfram. Fer upp, niður og jafnvel eitthvað allt annað, að hætti Spektor og Holter sem eru kunnar fyrir að breyta skyndilega og harkalega um takt og tóntegundir ef því er að skipta.

„Elsewhere“ er í svona leikrænu flæði, líkt og það tilheyri súrrealískum söngleik, söngröddin ertin og léttleikandi. Hún er líka há, jafnvel krúttleg, og undraheimur múm kemur í hugann. „Don‘t Take Me So Seriously“ er sama marki brennt og flott hvernig Salóme lækkar skyndilega röddina á óvæntum stöðum, eitthvað sem gefur laginu karakter. Hei, ég gleymdi næstum því að tala um tónlistina sem slíka! Dramatískt píanó og smekklega útsettir strengir leiða vanalega framvinduna og styðja afskaplega vel við flutninginn. Titillagið er vel magnað og líklega „holterískasta“ lagið. Sveigjur og beygjur allan tímann, lag sem sleppur jafnan undan þér um leið og þér finnst þú vera komin með tök á því. Sóley hefur líka verið að vinna með svipuð minni, ekki leiðum að líkjast. Glæsismíð.

Frambærilegasti frumburður og gott betur, það verður bara að segjast. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.