Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Áríðandi að undirbúa sig vel fyrir ferð að eldgosinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir mikilvægt að hafa í huga að fólk sem heldur að gosstöðvunum í Geldingadölum er á ferð um íslenska náttúru þótt hún sé nærri mannabyggð.

Stríður straumur fólks hefur verið að gosstöðvunum nánast frá því að gosið hófst 19. mars síðastliðinn. Frá upphafi talninga hafa tæplega 27 þúsund lagt leið sína þangað samkvæmt tölum Mælaborðs ferðaþjónustunnar.

Langflestir sóttu gosstöðvarnar heim á sunnudaginn var eða 5.630 en í gær komu ríflega þrjú þúsund að gosinu. Tíðindi hafa borist af því að fólk hafi slasast eða örmagnast á leiðinni en svo virðist sem dregið hafi úr óhöppum eftir að ný gönguleið var stikuð að gosinu. 

Fjöldinn allur af björgunarsveitarfólki er til aðstoðar göngufólki en lið úr björgunarsveitum hvaðanæva af að landinu hefur hlaupið undir bagga með liðsfólki Þorbjörns úr Grindavík. 

„Það er mikilvægt að allir séu velbúnir, tilbúnir í langa göngu. Flestir vilja njóta sín við gosstöðvarnar í einhvern tíma,“ segir Davíð. „Það er mikilvægt að vera með nesti og vel hlaðinn farsíma og vera tilbúinn í öll veður eins og búast má við Íslandi.“ 

Davíð segir áríðandi að þekkja sín mörk. Áríðandi sé að hafa með sér nesti og eitthvað að drekka. „Það vilji svo heppilega til að yfirleitt eru þrjátíu til fjörtíu úr hópi viðbragðsaðila við leiðina sem geta brugðist við ef eitthvað kemur upp á.“ 

Hann segir langflesta vel búna en í ljósi þess hve margir hafi farið að gosstöðvunum séu alltaf einhverjir sem vanmeti eigin getu og aðstæðurnar. „Þá er í raun og veru best að vera með einhverjum og í hóp. Þú ert með vel hlaðinn síma svo þú getir hringt eftir aðstoð.“