Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Aprílgabb úr böndunum: Táragas til að stöðva útihátíð

01.04.2021 - 22:52
epa09111132 Police on horses try to disperse people as they take part in fake festival called 'La Boum' organized by an anonymous group of people on Facebook for an April Fool's joke at the 'Bois de la Cambre, in Brussels, Belgium, 01 April 2021.  An anonymous group created a Facebook event called 'La Boum', touting an alleged festival to take place with famous DJs as headliners. Thousands of people on social media had shown interest to take part in the gathering, while police have advised that no authorization has been given for a music event.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Aprílgabb fór illilega úr böndunum í Brussel í dag, þegar þúsundir partíþyrstra Belga stormuðu í almenningsgarð í höfuðborginni í blíðskaparveðri, til að skemmta sér á auglýstri tónlistarhátíð sem engin reyndist vera. Lögregla, ýmist á hestbaki eða í óeirðagalla, beitti meðal annars háþrýstidælum og táragasi til að dreifa mannfjöldanum, sem var allt annað en ánægður með hvort tveggja tónleikaleysið og harkalegar aðgerðir lögreglu.

Var auglýst sem gabb

Engum hefði þó átt að koma á óvart að auglýstir skífuþeytarar og tónlistarmenn skyldu ekki láta sjá sig, því tónlistarhátíðin var auglýst á samfélagsmiðlum í gær og í dag sem „Fyrsta-apríl-tónlistarhátíð.“

Að lögregla skyldi ganga hart fram í að leysa gleðskapinn upp hefði heldur ekki átt að koma aftan að neinum, því strangar sóttvarnareglur gilda í Belgíu, sem kveða meðal annars á um að ekki megi fleiri en fjögur koma saman á einum stað, auk þess sem lögregla varaði við því að mæta í garðinn vegna gildandi samkomubanns.

En þótt flestir hafi haft skilning á því að stöðva þyrfti galskapinn, þá þótti mörgum nóg um hörku lögreglunnar við þá iðju sína. Þrír lögreglumenn meiddust í átökunum segir í frétt AFP, en ekki kemur fram hversu mörg úr hópi hátíðargesta hafi meiðst. Hins vegar voru fjögur þeirra handtekin.

Belgía hefur orðið illa úti í farsóttinni

Philippe Close, borgarstjóri Brussel, skrifaði á Twitter að þótt hann hefði skilning á því að fólk þyrsti í að komast út í vorblíðuna og hitta annað fólk, þá væri ekki hægt að líða samkomur eins og þessa. Þakkaði hann lögreglu „fyrir vel unnin störf, og öllu fólkinu, sem hefur virt reglurnar í meira en heilt ár.“

Leitun er að löndum sem farið hafa verr út úr heimsfaraldri kórónaveirunnar en Belgía, þar sem yfir 880.000 af 11,5 milljónum landamanna hafa greinst með COVID-19 og um 23.000 manns dáið úr sjúkdómnum. Það samsvarar 200 dauðsföllum á hverja 100.000 íbúa. Til samanburðar eru dauðsföll í Brasilíu rúmlega 150 á hverja 100.000 íbúa og hér eru þau innan við 8 á hverja 100.000 landsmenn.