Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allir og amma þeirra komin með sín eigin hlaðvörp

Mynd: LSH / LSH

Allir og amma þeirra komin með sín eigin hlaðvörp

01.04.2021 - 18:15

Höfundar

Mörg hundruð Íslendingar halda úti hlaðvörpum og hefur hlustun á þau margfaldast undanfarin ár. Um 20 prósent þjóðarinnar segist hluta á hlaðvörp oft í viku, daglega eða oft á dag. Mikill fjöldi opinberra stofnana, félagasamtaka og stjórnmálaflokka heldur úti sínum eigin þáttum, til dæmis Barnaverndarstofa, Umboðsmaður skuldara og Byggðastofnun. Upplýsingafulltrúi Landspítalans segir þetta fréttabréf samtímans.

Hlustun hefur margfaldast

Gallup hefur mælt hlaðvarpshlustun síðan 2007. Það ár sögðust 85 prósent aldrei hlusta á slíkt - en það hefur snarbreyst. Tíu árum seinna var hlutfallið 60 prósent og 2020 sögðust 40 prósent aldrei hlusta á hlaðvörp. Að sama skapi hlusta nú um 20 prósent þjóðarinnar á hlaðvörp nokkrum sinnum í viku, daglega og sumir oft á dag. Það hlutfall var minna en eitt prósent 2007.

Ekki jafn vinsælt hjá öllum

Kynjahlutföll eru nokkuð jöfn, en hlaðvörp eru greinilega vinsælli hjá yngri kynslóðum. Fólk á höfuðborgarsvæðinu hlustar meira á hlaðvörp en íbúar á landsbyggðinni og sömuleiðis er fylgni á milli menntunarstigs og hlaðvarpshlustunar. Um 70 prósent þeirra sem eru með grunnskólapróf hlusta aldrei á hlaðvörp, en einungis um 30 prósent þeirra sem eru háskólagengin. Eftir því sem tekjur hækka eykst hlustunin, en þau sem eru með hæstu tekjurnar eru líklegust til að hlusta á hlaðvörp. 

Úr útvarpi í hlaðvarpsveitur

Fyrst voru það útvarpsþættirnir sem urðu aðgengilegir á hlaðvarpsveitum, en það hefur breyst og nú virðast allar helstu stofnanir, stjórnmálaflokkar, fyrirtæki og sveitarfélög bjóða upp á þessa þjónustu. Og Íslendingar hlusta langmest á íslensk hlaðvörp. Fjöldi íslenskra hlaðvarpa hefur margfaldast síðustu ár og skipta nú hundruðum. Umboðsmaður skuldara, Byggðastofnun, Barnaverndarstofa, ADHD-samtökin, Afstaða, Akureyrarbær, Hafnarfjörður, Djúpivogur og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga eru bara örfá dæmi um stofnanir, sveitarfélög og samtök sem eru með sína eigin þætti. 

Eðlileg viðbót og ódýr tækni

Landspítalinn er langstærsti vinnustaður landsins, með átta þúsund manns í starfi og námi, og tekur á móti um þriðjungi þjóðarinnar á hverju ári. Upplýsingamiðlun er eðlilega mikil. Nú er hlaðvarp spítalans orðið ársgamalt, með um einum þætti á viku, og stendur til að fjölga þeim. 

„Þetta var bara eðlileg viðbót,” segir Stefán Hrafn Hagalín, upplýsingafulltrúi LSH. „Þetta er tiltölulega ódýr tækni. Startbúnaður með fjórum míkrafónum og upptökubúnaði er kannski 100 - 150 þúsund og þá ertu kominn með mjög professional græjur. Þetta er líka frekar casual miðill, fólk sest bara niður og ýtir á rec og klukkustund síðar er hlaðvarp yfirleitt tilbúið.”

Fréttabréf samtímans

Um 2.000 til 5.000 manns hlusta á hvern þátt, segir Stefán, langmest starfsmenn og nemendur. 

„Við erum að feta okkur áfram í aukinni starfsmannafræðslu og svo er sjúklingafræðslan óplægður akur,” segir hann. „Þetta eru fréttabréf samtímans. Og mér sýnist hlaðvarpið, svona miðað við það að það eru 200 eða 300 hlaðvörp í gangi, þá er þetta orðið svona eins og facebook var fyrir tíu árum og bloggið var fyrir fimmtán, tuttugu  árum.”

Tengdar fréttir

Menningarefni

Vinsælasta hlaðvarp landsins eignast litla systur

Menningarefni

Berglind Festival & hlaðvörp

Sjónvarp

Spaugstofan snýr aftur í hlaðvarpi

Bókmenntir

Opna hlaðvarpsstúdíó