Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Unnið að viðgerðum á Korpuskóla yfir páskana

Mynd með færslu
Kelduskóli-Korpu í Staðahverfi í Grafarvogi. Mynd: skjáskot af ja.is. Mynd:
Unnið verður að viðgerðum á húsnæði Korpuskóla um páskana en við skoðun fundust skemmdir á gólfdúk, í veggjum og vaskaskápum. Ummerki fundust einnig um raka í loftum auk þess sem EFLA verkfræðistofa sem hefur eftirlit með framkvæmdunum gerir athugasemdir við frágang á gluggum, hurðum og í kringum niðurföll.

Starfsemi Fossvogsskóla var nýverið flutt í Korpuskóla, sem staðið hefur ónotaður. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að samráð hafi verið haft við foreldra nemenda vegna framkvæmdanna. 

Í bréfi Ingibjargar Ýrar Pálmadóttur, skólastjóra Fossvogsskóla, til foreldra segir að allt rakaskemmt og myglað efni verði fjarlægt og rakaupptök stöðvuð áður en skólastarf hefst að nýju eftir páskafrí og þeim svæðum þar sem ekki tekst að ljúka viðgerðum verði lokað.

Tekin hafa verið 18 sýni úr byggingarefnum og þau greind. Sjö sýnanna hafa verið með mygluvöxt en 11 án hans. Beðið er niðurstaðna úr sex sýnum til viðbótar. 

Á þriðjudaginn tekur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur út húsnæði skólans en fulltrúar EFLU verða á staðnum. Samdægurs eru fyrirhugaðir upplýsingafundir með starfsfólki Fossvogsskóla annars vegar og foreldrum hins vegar. 

Ætlunin er að halda þeim framkvæmdum áfram eftir páska sem metið er að hægt verði að sinna meðan starfsemi er í húsinu. Aðrar viðgerðir verði svo gerðar í sumar, eftir að skólaárinu lýkur.