Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stjórn RÚV aðhefst ekki vegna erindis Samherja

31.03.2021 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Stjórn Ríkisútvarpsins ætlar ekki að taka afstöðu til kröfu útgerðarfélagsins Samherja um að fréttamaður RÚV fjalli ekki meira um málefni fyrirtækisins. Stjórn RÚV ákvað þetta á fundi sínum í gær, 30. mars, eftir að erindi útgerðarinnar var beint til stjórnarinnar.

Siðanefnd Ríkisútvarpsins komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að Helgi Seljan fréttamaður hafi brotið gegn siðareglum almannaútvarpsins með því að viðhafa ummæli á samfélagsmiðlum í eigin nafni. Siðanefndin sagði Helga hafa gerst sekan um alvarlegt brot á reglunum. Siðanefndin leiðrétti svo úrskurð sinn þegar í ljós kom að ein þeirra ummæla sem Helgi var dæmdur fyrir hafi alls ekki snúist um Samherja.

Samherji kærði ellefu starfsmenn RÚV til siðanefndar vegna samfélagsmiðlaummæla þeirra um umfjöllun Kveiks þar sem afhjúpuð voru gögn sem bentu til þess að Samherji hafi greitt valdafólki í Afríku mútur til þess að komast yfir veiðiheimildir. Þessar meintu mútugreiðslur eru til rannsóknar hjá saksóknara á Íslandi og víðar.

Siðanefndin vísaði kærum á hendur tíu starfsmönnum frá en dæmdi nokkur ummæli Helga sem brot á siðareglunum. Engin afstaða var tekin til fréttaflutningsins sjálfs.

Samfélagsmiðlafærslurnar sem Samherji kærði voru skrifaðar á tímabilinu frá því nóvember 2019 til ágúst 2020. Þær voru að stórum hluta viðbrögð við myndbandi sem Samherji birti í ágúst 2020 og beindi spjótum sínum sérstaklega að Helga Seljan, einum stjórnenda fréttaskýringaþáttarins Kveiks.

Í yfirlýsingu frá stjórnarformanni Ríkisútvarpsins segir að málefni einstakra starfsmanna séu ekki til úrlausnar hjá stjórn fyrirtækisins. „Stjórnin hlutast ekki til um fréttaflutning eða aðra dagskrárliði RÚV, t.d. með því að leggja mat á hvaða starfsfólk sinni umfjöllun eða fréttaflutningi um tiltekin málefni.“

Það fellur í hlut dagskrárstjóra, fréttastjóra og dagskrárgerðarfólks og fréttamanna að taka ákvörðun um hver sinnir hvaða verkefnum innan RÚV. Þau verkefni eru svo á ábyrgð útvarpsstjóra samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið.