Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segja Frakka hafa drepið 19 óbreytta borgara í Malí

31.03.2021 - 03:54
epa08025956 (FILE) - A military helicopter  carrying French President Emmanuel Macron (upper-L)  flies over Gao during a visit to France's Barkhane counter-terrorism operation in Africa's Sahel region, northern Mali, 19 May 2017 (reissued 26 November 2019). According to recent reports, 13 French soldiers died in helicopter crash during the Barkhane counter-terrorism operation against jihadists in Mali.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON / POOL
Franskar herþyrlur á flugi yfir Malí  Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Frakkar drápu minnst 19 óbreytta borgara í loftárás sem flugher þeirra gerði á þorp í Malí í ársbyrjun. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Franska varnarmálaráðuneytið og yfirstjórn franska hersins hafna þessari niðurstöðu og segja eingöngu íslamska vígamenn hafa fallið í árásinni.

Franskar orrustuþotur gerðu loftárás á skotmark í landnu miðju hinn þriðja janúar síðastliðinn, nærri þorpinu Bounti. Þorpsbúar sögðu árásina hafa beinst að brúðkaupsveislu þar sem nær allir viðstaddir voru óbreyttir borgarar.

Talsmenn franska hersins neituðu þessu, fullyrtu að ekkert brúðkaup hafi verið haldið í Bounti þennan dag og að allir sem féllu hafi verið vígamenn íslamista. Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Malí ákvað að rannsaka málið.

Brúðkaupsveisla var vissulega haldin í Bounti

AFP-fréttastofan fékk í gær aðgang að helstu niðurstöðum rannsóknarinnar. Þar segir að brúðkaup hafi vissulega verið haldið í Bounti þennan dag og að „100 borgarar hafi safnast saman“ þar sem sprengjurnar féllu. Tekið er fram að fimm vopnaðir menn, sem taldir eru tilheyra vígasveit öfga-íslamista, hafi verið í veislunni. 22 féllu í árásinni, þar af voru minnst 19 úr hópi óbreyttra og óvopnaðra brúðkaupsgesta.

Ræddu við hundruð þorpsbúa

Rannsóknarnefndin ræddi við um 115 manns á vettvangi, annan eins fjölda í gegnum síma og enn fleiri í hóp-viðtölum. Niðurstaðan er afgerandi: „Hópurinn sem árásin bitnaði á samanstóð að langmestu leyti af óbreyttum borgurum sem njóta friðhelgi samkvæmt alþjóðalögum,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

„Þessi loftárás vekur alvarlegar efasemdir um virðingu [franska flughersins] fyrir gildandi meginreglum um hernaðaraðgerðir.“ Her og varnarmálaráðuneyti Frakka neita þó enn sök og véfengja aðferðafræði og niðurstöður rannsóknarinnar. Mali var áður frönsk nýlenda og franski herinn hefur verið með mannskap í landinu frá 2013, til að aðstoða heimamenn í viðvarandi stríði við vígasveitir íslamista sem þar herja. Um 5.100 franskir hermenn eru í Malí um þessar mundir, samkvæmt frétt AFP.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV