Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samningur framhaldsskólakennara og ríkisins í höfn

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólumskrifuðu í dag undir samkomulag um breytingar og framlengingu á kjarasamningi við ríkið. Nýja samningnum er ætlað að gilda frá 1. janúar 2021 til 31. mars 2023.

Kjarasamningar framhaldsskólakennara runnu út um áramótin. 

Samninganefnd ríkisins féllst ekki á kröfu framhaldsskólakennara um aukagreiðslur vegna mikils álags í kórónuveirufaraldrinum. 

Skólastofnanir hafa greitt kennurum vegna þessa álags og Guðjón Hreinn Hauksson, formaður félags framhaldsskólakennara, segir í samtali við fréttastofu að kennarar ætli að halda áfram að ganga eftir því að þau mál séu leyst farsællega innan hvers skóla.

Misvel hafi gengið, sumir skólar hafi staðið sig ágætlega en aðrir undir væntingum. Guðjón segir það eðlilega kröfu og málefnalega að þegar verkefnum fjölgi sé það leyst innan hvers skóla.

Guðjón vill sem minnst segja um samninginn, sem er í anda lífskjarasamninganna, en telur hann ásættanlegan í stöðunni. 

Í apríl á síðasta ári undirrituðu framhaldsskólakennarar skammtímasamning en þá höfðu þeir verið samningslausir í rúmt ár. „Nú er verið að staðfesta áframhald og eftirfylgni þeirrar vinnu sem þá var unnin.“

Samningaviðræður gengu ekki sem skyldi fram að áramótum en nú er samningur í höfn með fulltingi ríkissáttasemjara og með fyrirvara um samþykki félagsmanna Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum. 

Fyrirkomulag kynninga og atkvæðagreiðslu um samninginn verður kynnt strax eftir páska.