Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Öldungur á hjólaskautum safnar fyrir skólamáltíðum

31.03.2021 - 22:18
Mynd: myndband BBC / skjáskot
Breti á níræðisaldri er nýbyrjaður að renna sér á hjólaskautum eftir sjötíu ára hlé. Þannig vill hann safna fyrir ókeypis skólamáltíðum, málefni sem stendur honum hjarta nær. 

John Wilcock frá Warwick á Englandi fagnar níræðisafmælinu í janúar á næsta ári. Þangað til ætlar hann að renna sér á hjólaskautum, tvo hringi í viku, í kringum húsaröðina þar sem hann býr. Markmiðið er að fara níutíu hringi fyrir afmælið. „Það er leiðinlegt að ganga og frekar fúlt að skokka. Svo sá ég dreng og föður hans á hjólaskautum og hugsaði að þarna væri ferðamáti fyrir mig. Svo kom Sir Tom með göngugrindina og ég hugsaði: Já, með grind konunnar get ég skautað,“ segir Wilcock um uppátækið.

Hugmyndina fékk hann frá Sir Tom Moore sem gekk hundrað hringi í kringum húsið sitt í Bedfordskíri fyrir hundrað ára afmælið og safnaði fé fyrir breska heilbrigðiskerfið. Barátta fótboltamannsins Marcus Rashford fyrir ókeypis skólamáltíðum, líka þegar skólar eru lokaðir, hefur einnig verið Wilcock innblástur og ætlar hann að láta það sem hann safnar renna til málaflokksins.

„Þegar ég var strákur höfðum við lítið milli handanna og ég fékk líka ókeypis mat í skólanum. Við vorum þakklát fyrir það en ég þekkti af eigin raun hvernig var að fara svangur í skólann.“

Söfnunin byrjaði vel og þegar eru komin áheit frá þremur heimsálfum. Hann vill alls ekki vera kallaður hetja. „Þau sem heita á mig eru hinar sönnu hetjur. Hvað gerði ég án þeirra?“