Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Hér er heilt bæjarfélag í gíslingu“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Vettvangsstjórn í Grindavík kom saman klukkan átta, meðal annars til að ræða hvort breyta þurfi skipulagi á svæðinu í kringum gosstöðvarnar í Geldingadölum vegna mikillar aðsóknar. Í bjartviðrinu í gær var bíll við bíl langleiðina eftir öllum Grindavíkurvegi og um kvöldmatarleytið lokaði lögregla fyrir bílaumferð að svæðinu.

„Þetta er náttúrulega ekki hægt“

Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, segir augljóst að grípa þurfi til aðgerða til að hlífa Grindvíkingum, jafnvel að taka upp einstefnu á Grindavíkurvegi. 

„Mér finnst kerfið hafa hrunið. Hér er heilt bæjarfélag í gíslingu, mér finnst þurfa að bregðast betur við þessu, betri stýring. Það þarf að setjast yfir þetta. Maður upplifir þetta þannig að bæjarfélagið er komið í gíslingu. Þetta er náttúrulega ekki hægt,“ segir Bogi sem vonar að vettvangsstjórn taki til alvarlegrar skoðunar að endurskipuleggja aðkomuna.

Eins og að leggja þjóðveg í gegnum bæinn

„Þetta er eins og að leggja þjóðveg í gegnum bæinn án þess að spyrja kóng eða prest. Ég veit að fólk komst ekki í búðina í gær, það komst ekki inn í bæjarfélagið og ekki út úr bæjarfélaginu. Fólk var fast við Þorbjörn með krakkana sína í lengri tíma. Menn hafa verið í erfiðleikum með að koma sjúkrabíl inn og út úr bænum þegar eitthvað skeður. Þannig að þetta er svolítið vesen. Mér skilst að þetta hafi haft áhrif alveg út á Reykjanesbraut,“ bætir Bogi við. 

Þegar hann er spurður hvort búist sé við jafnmikilli umferð í dag og í gær segir hann að bráðum hljóti fólk að vera búið að sjá þetta. „Og þó, fólk kemur aftur, ég hef heyrt um fólk að fara í 14. sinn!,“ segir hann. 

Björgunarsveitin hefur átt langa daga: „Ég vaknaði klukkan 6 í gær og kom heim um miðnætti. Þetta fer að taka í, þetta fer að verða eins og mánaðarútgerð á togara,“ segir hann.