Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gossvæðið opið 6-18 og rýmt klukkan 22

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Opnað verður fyrir umferð að gosstöðvum klukkan sex að morgni fram yfir páska, að því gefnu að það viðri vel til útivistar. Lokað verður fyrir alla umferð að gosstöðvum kl. 18, og fyrr ef nauðsyn krefur og byrjað verður að rýma gossvæðið klukkan tíu á kvöldin.

Þetta var ákveðið á fundi vettvangsstjórnar í morgun og Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður á Suðurnesjum, segir að lögreglan geri ráð fyrir að grípa fyrr inn í en verið hefur til þess að koma í veg fyrir umferðarörtöð um Grindavíkurveg. Nú þegar eru hátt í tvö þúsund manns komnir á svæðið. 

„Seinni partinn í gær og í gærkvöldi var bílaröð í gegnum bæinn, alla Víkurbrautina og inn á miðjan Grindavíkurveg. Þetta veldur óþægindum. Fólk var að reyna að fara í vinnu og fara í búðina og það lokaðist alveg þessi leið. Þetta var ekki nógu gott,“ segir hann. 

Hafiði áhyggjur af því að þetta verði svona áfram? Ætliði að bregðast fyrr við til að koma í veg fyrir það?

„Við höfum vissulega áhyggjur af því, en þetta var í fyrsta skipti sem þetta gerist. Og við verðum að vera viðbúin að loka fyrir og stýra fólki frá þannig að við lendum ekki í svona mikilli biðröð. Það kom einn árekstur hérna inni í bænum upp úr þessu ástandi,“ segir Hjálmar. „Nú erum við meðvituð um að þetta má helst ekki skapast aftur,“ bætir hann við.

Og hverju haldiði að nýr opnunartími breyti?

„Miðað við auglýstan opnunartíma, ég veit ekki hvernig fólk bregst við því, hvort það leggi bara fyrr af stað og raðirnar myndist fyrr. Þannig að við verðum að vakta ástandið. Ég veit ekki hvernig fólk bregst við ef það vill sjá svæðið í ljósaskiptunum eða í myrkri, en þess vegna er verið að loka svæðinu klukkan 18, það er bara vegna þess að við höfum ekki mannskap til að þjónusta fólk á svæðinu ef það gerist eitthvað. Við miðum okkar aðgerðir bara við það hvernig við getum tryggt öryggi fólks. Það er veðurfarslega og hvernig vindáttin er. Þetta er ekki auðveld ákvörðun til að taka yfir langt tímabil,“ segir hann. 

Hefur færst í aukana að fólk slasist á leiðinni?

„Já, á leið A, það er hálka þar og menn voru beðnir um að taka með sér mannbrodda, menn eru uppi á fjöllum og það er ísing og hálka. Jú, það hafa komið óhöpp fyrir en ekkert miðað við þann mannfjölda sem er. En það er allt of mikið um að menn séu ekki vel búnir þarna,“ svarar Hjálmar.