Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telur landlækni grafa undan ákvörðun ríkisstjórnarinnar

30.03.2021 - 17:19
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir gríðarlega mikilvægt að litakóðunarkerfi verði tekið upp á landamærunum 1. maí eins og stefnt hefur verið að. Hann segir forsendur ekki hafa breyst og telur sóttvarnayfirvöld reyna að grafa undan ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt litakóðunarkerfinu verða mis strangar reglur í gildi um komufarþega eftir því hver staða faraldursins er í því landi sem þeir koma frá. Komufarþegar frá löndum með lágan smitstuðul geta til að mynda sloppið við sóttkví.

„Það er alveg ljóst að upptaka litakóðunarkerfisins, það er að segja flokkun landa í áhættusvæði, er gríðarlega mikilvæg. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 15. janúar hefur gert það að verkum að ferðaþjónustan hefur yfir höfuð getað stundað markaðsstarf fyrir næsta sumar og vetur. Þetta eru engir smá hagsmunir sem eru í húfi að sú ákvörðun - og það traust sem hún byggði upp á íslenskum stjórnvöldum og íslenskri ferðaþjónustu - standist,“ segir Jóhannes.

Alma Möller, landlæknir, sagðist í Kastljósi í gær hafa efasemdir um að taka upp litakóðunarkerfi 1. maí. „Ég tel að við eigum áfram að viðhafa ítrustu varkárni á landamærunum og að það sé kannski ekki tímabært að fara að opna þau meira,“ sagði hún meðal annars.

„Það er orðið svolítið sérstakt þegar menn eru farnir að gera það nánast daglega í fjölmiðlum að reyna að grafa undan ákvörðunum ríkisstjórnarinnar sem eru ekki teknar á einhverjum duttlungum heldur á grunni mjög faglegrar og ítarlegrar skýrslu,“ segir Jóhannes.

Alma Möller sagði í gærkvöld að faraldurinn væri á mikilli siglingu víða erlendis, afbrigði veirunnar hefðu breytt leikreglunum og þá væri ekki nægilega fjölmennur hópur bólusettur hér á landi. 

Er staðan ekki önnur en þegar ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun um litakóðunarkerfið?
„Nei, ég held að hún sé nefnilega eiginlega nákvæmlega sú sama og þegar ríkisstjórnin tók sína ákvörðun eða allavega eins og búast mátti við að hún yrði núna. Staðan er einfaldlega þannig að samkvæmt þessu litakóðunarkerfi munu nánast öll Evrópulönd fara á rautt og fara þess vegna í hörðustu sóttvarnaaðgerðir. Það hefur ekkert breyst. Þetta kerfi þýðir ekkert að hingað flæði inn einstaklingar frá löndum sem eru með faraldurinn í gríðarlegri útbreiðslu eða sókn. Það er alls ekki þannig,“ segir Jóhannes.

„Kerfið er fyrst og fremst hugsað gagnvart ríkjum innan Schengen og þeim ríkjum þar sem fólk má ferðast óbólusett inn til Shengen sem eru nú ekki mjög mörg. Þá verður ekki hætt að skima fólk í þessu kerfi. Það verða allir að undirgangast landamæraskimanir eins og áður. Munurinn er einfaldlega sá að fólk sem kemur frá löndum sem eru gul eða græn - sem eru afar fá eins og staðan er í dag, jafnvel innan Evrópu - munu þurfa að framvísa neikvæðu PCR vottorði við komuna og þurfa síðan að fara í landamæraskimun,“ bætir hann við.