Stærsta hótel landsins nýtt sem farsóttahús

Mynd með færslu
 Mynd:
Sjúkratryggingar Íslands eru að ganga frá samningi við Fosshótel Reykjavík um að það verði nýtt sem farsóttahús fyrir þá ferðamenn sem hingað koma og eru frá skilgreindum áhættusvæðum. Samkvæmt reglugerð sem tekur gildi 1.apríl þurfa ferðamenn frá þessum svæðum að vera í sóttkví í farsóttahúsi á milli fyrstu og annarrar sýnatöku. Frá 11. apríl greiða þeir 10 þúsund krónur fyrir nóttina og er fæða innifalin.

Fosshótel Reykjavík er stærsta hótel landsins með 320 herbergjum. Það stendur við Þórunnartún, skammt frá höfuðstöðvum landlæknis og sóttvarnalæknis í Katrínartúni.  

Sjúkratryggingar Íslands sjá um að semja við hótelin en Rauði krossinn hefur síðan verið með rekstur þeirra. 

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, staðfestir í samtali við fréttastofu að verið sé að ganga frá samningum um Fosshótel Reykjavík.  Hann segir allar hótelkeðjur hafa boðið í þetta verkefni en ekki séu miklir peningar í boði. „ Þetta stendur varla undir kostnaði en það er samt gott að fá þessar tekjur.“

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir í samtali við fréttastofu að verið sé að semja við rekstraraðila, Rauða Krossinn og heilbrigðisaðila á hverju svæði fyrir sig.  Hún segir starfsmenn og sjálfboðaliða Rauða krossins eiga sérstakar þakkir skilið fyrir frábært samstarf og jákvæð og góð viðbrögð „við þessu mikilvæga verkefni.“

María segir endanlegan kostnað ekki liggja fyrir en ljóst sé að hann verði töluverður. Þær 10 þúsund krónur sem á að rukka frá og með 11. apríl komi sér vel og þá eigi kostnaðurinn eftir að sveiflast eftir því hversu margir eigi eftir að dveljast í farsóttahúsum.    

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður hægt að virkja tvö hótel á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar ef ferðamönnum fjölgar verulega.  Þar hefur verið horft Hótel Barón og Rauðarárstígs sem hafa áður verið nýtt sem farsóttahús í skamman tíma.

Fosshótel Lind við Rauðarárstíg 18 hefur verið notað sem farsóttahús síðan kórónuveirufaraldurinn hófst fyrir rúmu ári. Þar hefur fólk verið bæði í sóttkví og einangrun, útlendingar og Íslendingar. 

Eftir því sem fréttastofa kemst næst á að efla Hotel Aurora í Keflavík vegna ferðamanna sem þarf að vísa úr landi og meiri kraftur verður settur í farsóttahús á Austurlandi vegna Norrænu sem og á Akureyri. María segir að nákvæm útfærsla á þessum svæðum liggi ekki fyrir. 

Talsverðar breytingar verða á landamærunum 1. apríl. Ferðamenn frá löndum eins og Noregi, Svíþjóð, Póllandi, Frakklandi og Spáni þurfa að dveljast í farsóttahúsi við komuna til landsins.  Þá verða börn skimuð fyrir veirunni í fyrsta skipti og þeir sem hafa vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu. Þetta er gert vegna gruns um að þeir geti þrátt bólusetningu og fyrri sýkingu borið með sér smit.