
Samherjamálið í alþjóðlegu samhengi
Reykjavík óx ekki sem skúraþyrping
Þegar Ísland fór að auðgast, eftir seinni heimsstyrjöldina, var það ekki síst sjávarútvegi að þakka. Nýting fiskistofna gagnaðist allri þjóðinni og Reykjavík byggðist ekki upp sem skúraþyrping í kringum nokkrar glæsivillur.
Það þarf ekki að útskýra fyrir Íslendingum að úthlutun veiðileyfa og kvóta er stórkostlegt hagsmunamál. Algjört undirstöðuatriði er að fiskimið hverrar þjóðar nýtist í þágu þjóðarinnar. Enn frekar nú þegar ofveiði ógnar mörgum nytjastofnum.
Ofveiði er ógn – nýting fiskistofna lífsspursmál
Samkvæmt skýrslu 2018 frá FAO, Sjávarútvegs- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, var staðan sú 2015 að tæplega 60 prósent nytjastofna voru veiddir í topp og 33 prósent ofveiddir.
Með þetta í huga, að fiskur er hörgul-auðlind og að réttlát nýting hennar er lífsspursmál fyrir hverja þjóð hafa ýmis samtök og stofnanir beint athyglinni að fiskveiðum og spillingu.
Interpol fylgist með fiskveiðum
Sérstök deild innan Interpol, alþjóðalögreglunnar, fylgist með fiskveiðum og hefur meðal annars á vefsíðu sinni skýrslu, sem Norðurlandaráð gaf út 2017 um áhrif útflöggunar og leyndar á eftirlit með fiskveiðum. Þar segir að stórt vandamál í fiskveiðistjórnun sé leynd. Leynd um eignarhald félaga og skipa.
Bankahrunið opnaði sýn inn í huliðsheima aflandsfélaga
Bankahrunið 2008 opnaði Íslendingum sýn inn í huliðsheima aflandsfélaga. Aflandsfélög eru lögleg leið, oftast, til að fela og leyna. Í alþjóðlegum sjávarútvegi, eins og víðar, er leynd og falið eignarhald í gegnum aflandsfélög einn helsti vandinn.
Skýrsla Norðurlandaráðs: leynd og aflandsvæðing í sjávarútvegi
Í norrænu skýrslunni er bent á að vegna leyndar þá viti saksóknarar og aðrir, sem rannsaka meint brot í sjávarútvegi, oft ekki hvað þeir viti ekki. Með öðrum orðum, þeir vita ekki hverju er leynt, geta því illa metið hvort til dæmis félagafléttur feli mútugreiðslur. Rannsakendur eltast við lögleg félög, sem eru stofnuð til að rugla og hindra viðleitni til að komast til botns í meintum glæpum, hindra að menn þurfi að svara til saka.
Einmitt vegna leyndarinnar þá sést oft ekkert fyrr en uppljóstrarar afhjúpa leyndina, sýna hvað leynist að baki, að því er virðist, löglegri starfsemi. Ein hliðaráhrif leyndarinnar eru ofveiðar og ósjálfbærni í sjávarútvegi. Allt hangir þetta saman.
Gagnsæi besta leiðin til að berjast gegn spillingu, líka í sjávarútvegi
Það á við í sjávarútvegi eins og víðar að gagnsæi er besta aðferðin til að berjast gegn spillingu. Gagnsæi er því rauði þráðurinn í baráttunni gegn spillingu í sjávarútvegi. United Nations Office of Drugs and Crime er sú deild Sameinuðu þjóðanna, sem fylgist með eiturlyfjum og glæpum, einnig í sjávarútvegi. Í skýrslu deildarinnar 2019 um sjávarútveg er skipaskrá Fiskistofu tekin sem dæmi um gagnsæi í raun.
Ein birtingarmynd spillingar: úthlutun veiðileyfa
Enn fremur er bent á birtingarmyndir spillingar. Ein þeirra er spilling tengd veiðileyfum.
Þar segir: „Sjávarútvegsráðherra eða embættismaður, sem fer með útgáfu veiðileyfa til erlendra fiskiskipa getur freistast til að taka á móti greiðslu frá þeim, sem sækir um leyfi, ef ekki er til staðar virkt eftirlit.“
Af hverju þarf að taka á veiðibrotum sem efnahagsbrotum?
Sektir við veiðibrotum eru víðast hvar lágar og sektirnar einar og sér því ekki mikil vörn gegn glæpum í sjávarútvegi. Sektir eru aðeins léttvæg áhætta og smá viðbótar kostnaður. Þess vegna er einmitt hnykkt á mikilvægi þess í allri umfjöllun um spillingu tengda fiskveiðum að meint brot séu rannsökuð ekki aðeins sem brot á fiskveiðilöggjöf, þar sem sektir eru iðulega lágar, heldur sem efnahagsbrot, með mun harðari viðurlögum.
Efnahagsbrot eru alvarleg brot, ekki brot á veiðilöggjöf
Skilaboðin eru: fiskveiðiglæpir eru efnahagsbrot. Fela oft í sér mútur, alls staðar alvarlegt brot. Fylgifiskurinn er iðulega peningaþvætti, til að fela mútugreiðslurnar. Láta þær líta út fyrir að vera eitthvað annað en þær eru, hvort sem þær eru bókfærðar sem ráðgjafagreiðslur eða eitthvað annað sakleysislegt.
Spilling í sjávarútvegi bitnar á allri þjóðinni
Alþjóðastofnanir og samtök sem berjast gegn spillingu hafa augun á sjávarútvegi af því fiskur er auðlind, til búbótar fyrir þjóðina sem á auðlindina. Spilling í fiskveiðum bitnar á allri þjóðinni.
„Við líðum ekki spillingu, hvernig sem hún birtist. Við andæfum spillingu, óréttlæti, frændhygli og svikum svo lengi sem við drögum andann,“ sagði ræðukona í Namibíu á mótmælafundi vegna meintra mútugreiðslna Samherja til namibískra ráðamanna.
Þjóðartekjur á mann: Ísland í 12. sæti, Namibía í 113. sæti
Ísland er í 12. sæti á lista Alþjóðabankans yfir þjóðartekjur á mann með um sem samsvarar 7,6 milljónum króna. Namibía í 113. sæti með 1,2 milljónir króna.
Um 40 prósent Namibíumanna búa í skúraþyrpingum, meðal annars af því tekjur af þjóðarauðlindum skila sér ekki til þjóðarinnar.