Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mafíósi kom upp um sig í matreiðsluþætti á Youtube

30.03.2021 - 07:11
Mynd með færslu
 Mynd: Nico - Flickr.com
Ítalskur mafíósi á flótta undan réttvísinni var handtekinn í Dóminíkanska lýðveldinu í Karíbahafi nýverið. Glöggir áhorfendur matreiðsluþáttar á Youtube áttuðu sig á því hver var þar á ferð og komu lögreglu á sporið.

Marc Feren Claude Biart lifði hæglætisífi í Boca Chica í Dóminíkanska lýðveldinu síðustu ár. Hann hefur verið á flótta síðan 2014 þegar gefin var út handtökuskipun gegn honum fyrir kókaínútflutning til Hollands fyrir hönd Cacciola-arms 'Ndrangheta mafíunnar. 

Biart virðist hafa verið umhugað um að sýna fram á hæfileika sína í ítalskri matargerð. Hann birti eigin matreiðsluþætti á Youtube, en gætti þess þó að andlit hans sæist aldrei. Húðflúrin, sem Biart ber víða um líkamann, komu upp um hann að sögn lögregunnar, sem greindi frá handtökunni í gær. 

Guardian hefur eftir ítölsku lögreglunni að annar mafíósi úr 'Ndrangheta fjölskyldunni hafi verið handsamaður í gær. Sá heitir Francesco Pelle og var handtekinn í Portúgal eftir fjórtán ár á flótta. Hann var talinn einn allra hættulegasti flóttamaður Ítalíu. Pelle fannst þegar hann leitaði aðhlynningar á heilsugæslustöð í Lissabon vegna COVID-19. Honum er gefið að sök að hafa skipað fyrir um morðið á leiðtoga annarrar mafíufjölskyldu. 

Umfangsmestu mafíuréttarhöld Ítalíu í þrjá áratugi hófust í ársbyrjun. Alls bera um 900 manns vitni gegn yfir 350 sakborningum sem grunaðir eru um að vera í 'Ndrangheta mafíunni. Þeirra á meðal eru stjórnmálamenn og lögreglumenn.