Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kínverjar herða tökin á héraðsþingi Hong Kong

30.03.2021 - 06:16
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
epa09104590 A container ship sails out of the Kwai Tsing Terminals in Hong Kong, China, 29 March 2021. The fourth quarter 2020 total port cargo throughput decreased by 9.5 percent compared with the fourth quarter of 2019 to 61.3 million tonnes according to Hong Kong's Census and Statistics Department.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínverska þingið samþykkti í morgun gagngerar breytingar á kosningakerfi Hong Kong. Breytingarnar felast í því að færri þingmenn eru kjörnir af íbúum héraðsins, á meðan meirihluti þingmanna er valinn eftir gaumgæfilega athugun nefndar á vegum kínversku stjórnarinnar.

AFP fréttastofan hefur eftir Tam Yiu-chung, eina þingmanni Hong Kong á kínverska þinginu, að tillagan hafi verið samþykkt einróma. Lögin voru ekki borin undir héraðsþing sjálfstjórnarinnar í Hong Kong til samþykktar, heldur innleidd af stjórninni í Peking. Ríkisfréttastofa Kína greindi svo frá því í morgun að Xi Jingping, forseti Kína, hafi undirritað forsetaskipun þar sem viðaukarnir eru staðfestir.

Enn nokkur óvissa

AFP segir íbúa Hong Kong enn vera nokkuð óvissa um hvað nýju lögin þýða fyrir þá. Engar nákvæmar upplýsingar hafa verið gefnar út um innihald þeirra. Tam gaf AFP þó þær upplýsingar að þeir sem vilji bjóða sig fram til héraðsþings í Hong Kong þurfi nú að vera samþykktur af öryggisyfivöldum. Þau færi stjórnvöldum skýrslu um hvern einasta frambjóðanda. Sú skýrsla verður notuð til að sigta úr hópi frambjóðenda. Nefnd á vegum kínverska Kommúnistaflokksins fer svo yfir skýrslurnar og metur hverjir eru nógu miklir föðurlandsvinir til að fá að bjóða sig fram, hefur AFP eftir Tam.

Kosið um 20 af 90 sætum

Samkvæmt nýju lögunum verður sætum á héraðsþinginu fjölgað úr 70 í 90. Um leið er sætum sem íbúar Hong Kong fá að kjósa um fækkað úr 35 í 20. 40 þingsæti verða valin af sérstakri nefnd á vegum kínversku stjórnarinnar, og síðustu þrjátíu sætin eru valin af sérhagsmunahópum og hópum úr viðskiptalífinu. Báðir hópar eiga það sameiginlegt að styðja þétt við bak stjórnvalda í Peking.

Seinna höggið

Kínverska stjórnin hefur talað um þessar stjórnkerfisbreytingar sem seinna höggið til að kveða niður óánægjuraddir í héraðinu. Fyrra höggið voru nýju öryggislögin sem lögð voru á héraðið eftir fjölmenn mótmæli árið 2019. Fjöldi lýðræðissinna hefur verið handteknir eftir að lögin voru staðfest. 
Aðgerðir Kína hafa vakið miklar deilur á milli Kína og Vesturlanda, þá sérstaklega Bretlands. Bretar réðu yfir eyjunni fram til miðs árs 1997. Ríkin undirrituðu þá sáttmála um aukið frelsi og lýðræði íbúa í Hong Kong en á meginlandi Kína. Það átti að gilda í 50 ár.