Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Engin þriggja flokka stjórn samkvæmt Þjóðarpúlsi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ekki væri hægt að mynda þriggja flokka stjórn ef gengið yrði til kosninga nú, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur sjaldan mælst meiri, fylgi Samfylkingarinnar minnkar en stuðningur við Miðflokkinn eykst.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mesta fylgið, 23% sem er það sama og í síðasta Þjóðarpúlsi fyrir mánuði síðan, Samfylkingin mælist með 12,7%, tæpum tveimur prósentustigum minna en í síðustu könnun og fylgi Vinstri grænna er 12,3%, rúmu prósenti minna en síðast.

Fylgi flokka í Þjóðarpúlsi Gallup

Þjóðarpúls Gallup 30. mars 2021 samanborið við síðasta Þjóðarpúls og kosningaúrslit 2017.

D
Kosningar
25,3%
1. mars 2021
22,9%
30. mars 2021
23,0%
S
12,1%
14,4%
12,7%
V
16,9%
13,4%
12,3%
P
9,2%
12,2%
11,5%
B
10,7%
10,3%
11,1%
C
6,7%
9,4%
9,5%
M
10,9%
7,3%
9,5%
F
6,9%
4,0%
5,0%
J
0%
5,8%
5,0%

Heimild: Netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 29. mars 2021. Heildarúrtaksstærð var 9.856 og þátttökuhlutfall var 53,0%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,7-1,3%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Píratar mælast með 11,5% sem er lítið minna en í síðustu könnun, Framsóknarflokkurinn með 11,1% sem er tæpu prósenti meira en síðast  og Miðflokkurinn er með 9,5% sem er 2,2 prósentustigum meira en síðast. Viðreisn mælist sömuleiðis með 9,5% fylgi sem er svipað og síðast, fylgi Flokks fólksins er 5% og eykst um eitt prósentustig og fylgi Sósíalistaflokks Íslands er nú rétt um 5%, sem er tæpu prósentustigi minna en í síðasta Þjóðarpúls.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 60,5% og hefur ekki verið meiri síðan í apríl í fyrra. 

Yrðu þetta úrslit kosninganna í haust þá fengi Sjálfstæðisflokkur fimmtán þingmenn, Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstri græn og Píratar átta hver. Miðflokkurinn og Viðreisn fengju hvor um sig sex þingmenn, Flokkur fólksins þrjá og Sósíalistaflokkur Íslands fengi einn kjördæmakjörinn mann í Reykjavíkurkjördæmi norður, en næði ekki fimm prósenta þröskuldinum fyrir uppbótarmenn. 

Að minnsta kosti fjóra flokka þyrfti til að mynda ríkisstjórn. Án Sjálfstæðisflokksins gætu aðeins Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstri græn og Píratar myndað nauman fjögurra flokka meirihluta með 32 þingmönnum, að öðrum kosti þyrfti enn fleiri flokka.

Könnunin var netkönnun og gerð dagana 1.-29. mars. Heildarúrtakið var 9.856 manns sem valdir voru af handahófi og þátt tóku 53%.