Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Ég vissi ekki að það byggju svona margir á Íslandi“

30.03.2021 - 21:35
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Talið er að metaðsókn hafi verið að gosstöðvunum í dag. Enn eru þúsundir þar þrátt fyrir að lögregla hafi lokað svæðinu fyrir frekari bílaumferð fyrr í kvöld.

„Það er bara haugur af fólki. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því eiginlega,“ segir Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík. Hann segir þó að engin alvarleg slys hafi orðið á fólki.

Eruð þið búin að telja hversu margir eru á svæðinu?
„Ég held að við kunnum ekki að telja svona hátt,“ segir Bogi. Hann býst við að sami fjöldi, eða jafnvel enn fleiri, fari að gosstöðvunum um helgina. „Ég held að þetta sé bara forsmekkurinn.“

Þegar verst lét í dag var bíll við bíl langferðina eftir öllum Grindavíkurvegi og um kvöldmatarleytið ákvað lögregla að loka svæðinu fyrir bílaumferð úr báðum áttum, líka á mótum Krýsuvíkurvegar og Suðurstrandarvegar. Viðbragslið þurfti að hjálpa ökumönnum að snúa við en margir lögðu frekar lengra frá og gengu alla leið. Enn er talsverð umferð á svæðinu.

„Það hefur engan tilgang að troða sér hingað þegar það er fullt. Það er bara vesen að þetta sé orðið svona þannig að það er betra þá að koma annan dag. Ég vissi ekki að það byggju svona margir á Íslandi,“ segir Bogi.

Lögregla áætlar að rýma svæðið um miðnætti til að gefa viðbragsliði hvíld og líklega opna aftur í fyrramálið. Aðgerðastjórn fundar árla morguns vegna stöðunnar sem kom upp í dag en að sögn lögreglu gæti komið til þess að breyta þurfi skipulagi á svæðinu.