Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég taldi mig hafa orðið vitni að morði“

epa09105716 Protesters march through downtown Minneapolis on the first day of opening statements for the murder trial of former Minneapolis police officer Derek Chauvin who was charged in the death of George Floyd, in Minneapolis, Minnesota, USA, 29 March 2021.  EPA-EFE/CRAIG LASSIG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögreglumaðurinn Derek Chauvin herti sífellt tökin á hálsi George Floyd eftir því sem meðvitundin þvarr, sagði vitni í réttarhöldunum yfir Chauvin. Þetta kostaði Floyd lífið. Hann sagði að hann hefði þá talið sig vera vitni að morði. Sérfræðingur í lögum segir möguleika á að Chauvin verði sýknaður, einfaldlega af því að hann er lögreglumaður.

Fyrstu vitni voru kölluð fyrir dóm í réttarhöldunum yfir Derek Chauvin í gær og í dag. Meðal þeirra var Donald Williams, sem sá atvikið fyrir tilviljun, og hefur reynslu af MMA-bardagaíþróttum. Hann sagði takið sem Chauvin notaði á Floyd sérstaklega notað til að stöðva blóðrennsli til höfuðs. Williams sagðist hafa sagt það við Chauvin.

„Hann leit á mig í þetta eina sinn, þegar ég sagði: Þú stöðvar blóðflæðið. Við horfðumst í augu og hann gekkst við því,“ sagði Williams,

Chauvin hafi svo haldið takinu þar til Floyd missti meðvitund. Williams tilkynnti þetta til lögreglunnar. „Ég taldi mig hafa orðið vitni að morði,“ sagði hann spurður um ástæðuna fyrir því.

Darnella Frazer, 18 ára, sem tók margfrægt myndskeið af atvikinu, bar einnig vitni, og sagðist hafa séð að eitthvað óeðlilegt væri í gangi. Hún hafi verið á gangi með níu ára frænku sinni, rekið hana í búðina sem þau stóðu við og byrjað svo að taka atburðinn upp á símann sinn. „Það var ekki í lagi með hann. Hann þjáðist. Hann fann mikið til,“ sagði hún með grátstafinn í kverkunum. 

Hún sagði Chauvin ekki hafa brugðist við ítrekuðum beiðnum um að létta takinu af Floyd og hann hafi virkað ógnandi. Meðal annars hafi hann sett hendina á piparúðabrúsa sem hann var með, og gaf þannig til kynna að hann yrði notaður ef menn skiptu sér eitthvað af því sem væri að gerast.

Fleiri vitni af atburðarrásinni hafa komið fyrir dóm í dag. Meðal annars var slökkviliðsmaður á frívakt, sem hafði ítrekað beðið um að kanna hvort Floyd væri með púls, en engin svör fengið.

Somil Trivedi, lögmaður hjá ACLU, samtökum um borgaraleg réttindi, segir að það eina rétta í stöðunni sé að sakfella Chauvin og tryggja þannig réttlæti fyrir Floyd. En það sé ekki víst að það gerist. „Það eru miklar líkur á því að hann verði ekki fundinn sekur einfaldlega vegna þess að það er afar erfitt að sanna sekt manns sem ber lögregluskjöld.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV