Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Áslaug Magnúsdóttir og Sacha Tueni keyptu Svefneyjar

30.03.2021 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurbjörn Dagbjartsson
Ein sögufrægasta og einangraðasta bújörð landsins, Svefneyjar á Breiðafirði eru seldar. Sigurbjörn Dagbjartsson einn seljendanna staðfestir í samtali við fréttastofu að kaupsamningur hafi verið undirritaður á föstudag. Hann vill ekki gefa upp kaupverð eyjanna, sem hann segir vera einkamál kaupenda og seljenda.

Morgunblaðið greindi fyrst frá því að eyjarnar væru seldar og að kaupendurnir væru Áslaug Magnúsdóttir, frumkvöðull og kaupsýslukona, og austurrískur unnusti hennar, Sacha Tueni.

Að sögn Sigurbjörns keyptu faðir hans, Dagbjartur Einarsson útgerðarmaður í Grindavík og Þorsteinn Jónsson, eyjarnar árið 1993. Fljótlega hafi Gissur Tryggvason bæst í eigendahópinn en Olís hafi svo eignast hluta úr eign hans síðar meir.

Í einu rita Eggerts Ólafssonar náttúrufræðings og skálds sem ættaður var úr Svefneyjum segir að eyjarnar taki nafn sitt frá því að Hallsteinn „surtur“ Þórólfsson á Hallsteinsnesi hafi fundið þræla sína sofandi þegar þeir áttu að vera að vinna og drepið þá fyrir vikið.

Hlunnindi fylgja jörðinni, ekki síst æðardúnn en auk þess eru þar þangfjörur, vorkópar, eggjataka og fuglaveiði.

Sigurbjörn segir fjölskylduna hafa mest verið í eyjunum um dúntekjutímann, svona um tíu til tuttugu daga á ári. Lengi var æðardúnninn seldur óunninn en þau hafi í hyggju að gera meira úr dúninum í framtíðinni.

„Vonandi er þetta frábært viðskiptatækifæri en tíminn verður að leiða allt í ljós varðandi það.“ Í umfjöllun Morgunblaðsins um söluna segir að nýju eigendurnir hyggist nota Svefneyjar sem sumarheimili og þau muni jafnvel dvelja þar og vinna lengur.

Þörungaverksmiðjan á Reykhólum hefur sótt þara út í eyjarnar. Áslaug segir í samtali við Morgunblaðið að erlendis sé farið að nota þörunga í efni. Hún stefni að því að nota íslenska þörunga í nýju fatalínuna sem heitir Katla.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV