Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Verður líklega fjölsóttasti ferðamannastaður landsins

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, segir að bregðast þurfi hratt við að byggja upp innviði í nágrenni jarðeldanna í Geldingadölum. Útlit er fyrir að staðurinn verði fjölsóttasti ferðamannastaður landsins næstu misserin, óháð því hvort gos haldi þar áfram eða ekki.

Koma upp aðstöðu og þjónustu sem fyrst

Skarphéðinn segir að aðsóknin og áhuginn meðal Íslendinga sé mjög mikill og hálfgert lán í óláni að erlendir ferðamenn eigi tæplega kost á að sjá gosið um þessar mundir vegna sóttvarnaraðgerða á landamærum. Þess vegna sé mjög mikilvægt að huga strax að innviðum í nágrenninu og koma upp þjónustu og aðstöðu sem fyrst. 

5.600 manns á einum degi

Ferðamálastofa hefur talið hversu margir hafa lagt leið sína fótgangandi að gosstöðvunum undanfarna daga með sérstökum teljurum við gönguleiðina.  5600 manns fóru að jarðeldunum í gær, en um 16000 síðustu sjö daga. 

Hlusta má á viðtalið við Skarphéðinn í spilaranum hér að ofan.