
Væntir þess að yfirtökunni á ÖA ljúki í tæka tíð
Sjúkratryggingar hafa átt í viðræðum við tvö fyrirtæki, Heilsuvernd og Umönnun, um mögulega yfirtöku á rekstri Öldrunarheimila Akureyrar. María Heimisdóttir, forstjóri, segist reikna með að niðurstaða úr þeim viðræðum liggi fyrir fljótlega, áður en samningar við Akureyrarbæ um reksturinn renna út 30. apríl.
Reglulegir fundir með Sjúkratryggingum
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir fundað reglulega með Sjúkratryggingum um þetta mál og staðan metin út frá þeim upplýsingum sem þar komi fram. „Þar eru aðilar bara mjög bjartsýnir að þetta klárist, þannig að við bindum vonir við að þetta klárist hratt og örugglega.“
„Eru þetta einhverskonar samningaviðræður við bæinn, eða fyrst og fremst upplýsingafundir?“
„Þetta eru bæði samningafundir og upplýsingafundir. Við þurfum náttúrulega að semja um viðskilnað á rekstrinum og hvernig yfirtakan verður. Og sömuleiðis varðandi húsnæðis- og búnaðarmál. Þannig að það er fjölmargt sem við þurfum að ræða á þessum fundum.“
Mikilvægt að þessu fari að ljúka
Hún segir afar mikilvægt að þessu fari að ljúka svo yfirtakan geti gengið eðlilega fyrir sig. „Já, það er það og aðilar eru alveg sammála um það. Og líka sammála um að reyna að láta þetta ganga hratt og örugglega. En tíminn líður hratt og við þurfum að klára þetta sem fyrst.“