Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir engan fót fyrir ásökunum á hendur Róberti

29.03.2021 - 19:24
Mynd: Kastljós / Skjáskot
Stjórn lyfjafyrirtækisins Alvogen lét rannsaka starfshætti forstjórans Róberts Wessman eftir að fyrrverandi samstarfsmaður hans kvartaði undan ofbeldi og ósæmilegri hegðun hans. Stjórnin segir enga ástæðu til að aðhafast frekar. Lögmaður Alvogen segir engan fót fyrir þessum ásökunum. 

Samstarfsmaðurinn fyrrverandi heitir Halldór Kristmannsson og vann náið með Róberti í 18 ár. Hann sendi stjórn Alvogen bréf í janúar þar sem hann sakaði forstjórann um ofbeldisverk og ósæmilega hegðun og krafðist þess að hann stigi úr stóli forstjóra. Halldór krafðist ekki fjár frá félaginu en áskilur sér rétt til bóta frá Róberti.

Í yfirlýsingu segir Halldór að samstarf þeirra hafi verið farsælt þar til í fyrra. Þá var Halldór útgefandi Mannlífs, sem var í eigu Róberts og hann segir að Róbert hafi viljað að hann beitti fjölmiðlinum til að koma höggi á ýmsa aðila sem Róbert taldi sig eiga sökótt við.  Þar segir Halldór ennfremur að Róbert hafi ráðist á sig á viðburði fyrirtækisins erlendis og síðar útskýrt það sem grín og kýlingarleik.

Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður Alvogen, segir að ásakanir Halldórs hafi verið teknar mjög alvarlega og óháðum aðilum falið að fara yfir þær. „Þetta var átta vikna ferli af rannsókn þar sem fjöldi starfsmanna voru yfirheyrðir og niðurstaðan af því var að það væri ekki fótur fyrir neinu. Og að stjórnin bæri fullt traust til stjórnenda,“ segir Eva.

Eitt af því sem Róberti Wessman er borið á brýn er að hann hafi veist að samstarfsmanni sínum líkamlega. Var það tekið til skoðunar í þessari óháðu rannsókn? „Þetta var allt skoðað í kjölinn. Og það var enginn fótur fyrir slíku.“

Eva segir að meðal þess sem lagt hefði verið til grundvallar rannsókninni væru smáskilaboð sem Róbert Wessman sendi tveimur stjórnendum í lyfjaheiminum og fyrrum samstarfsmönnum sínum árið 2016 eftir að þeir höfðu borið vitni í máli sem hann átti aðild að. Í skilaboðunum hótaði hann þeim og fjölskyldum þeirra öllu illu. Eva segir að Róbert hafi sjálfur svarað fyrir þetta. „Hann baðst afsökunar á þeim mistökum sínum strax í kjölfarið. Og það heyrir undir samskipti þessara tveggja manna.“

Þannig að það var mat nefndarinnar að ekkert af þessu ætti við rök að styðjast? „Já og það væri þá enginn fótur fyrir þessum kröfum kvartanda,“ segir Eva.