Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Réttarhöld hafin yfir banamanni George Floyds

epaselect epa09105151 George Floyd family attorney Ben Crump (C-hat), Rev. Al Sharpton (3-R) and members of George Floyd's family and supporters knelt to mark the time that Derek Chauvin knelt on George Floyd's neck, the morning of opening statements for the murder trial of former Minneapolis police officer Derek Chauvin, in Minneapolis, Minnesota, USA, 29 March 2021. Derek Chauvin is charged with second-degree murder of George Floyd, an unarmed black man who died during his arrest on 25 May 2020.  EPA-EFE/CRAIG LASSIG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Réttarhöld eru hafin í Bandaríkjunum yfir fyrrverandi lögreglumanni sem varð George Floyd að bana síðastliðið vor. Hann á yfir höfði sér allt að fjörutíu ára fangelsi verði hann sakfelldur.

Fjöldi fólks safnaðist saman í dag utan við dómshúsið í Minneapolis þar sem réttarhöldin fara fram. Þar á meðal var fjölskylda George Floyds sem kraup þar til jarðar ásamt mannréttindalögfræðingum, aktívistum og fleira fólki við upphaf þeirra. Vissast þótti að kalla til tvö þúsund þjóðvarðliða ef óróaseggir reyndu að koma af stað uppþoti.

Fimmtán manna kviðdómur var skipaður fyrr í dag. Í honum sitja níu konur og sex karlar. Við upphaf réttarhaldsins sagði Jerry Blackwell sem sækir málið að lögreglumaðurinn fyrrverandi, Derek Chauvin, hafi vanvirt heiður lögreglunnar þegar hann varð George Floyd að bana með því að þrýsta að hálsi hans og baki með hnjánum, þrátt fyrir að Floyd bæðist margoft vægðar og segðist vera að kafna. Þá var kviðdómi sýnt myndskeið af ofbeldisverkinu. Chauvin á yfir höfði sér allt að fjörutíu ára fangelsi sakfelli kviðdómur hann. 

Lát George Floyds olli mikilli mótmælaöldu í Bandaríkjunum og víðar, þar sem lögreglumenn voru sakaðir um vanvirðandi framkomu og hrottaskap gegn blökkufólki.