Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Páskaeggjaflóran blómleg en sígilt egg enn vinsælast

29.03.2021 - 19:02
Mynd: RÚV / RÚV
Flóra og framboð páskaeggja hefur sjaldan verið meira en fyrir komandi páska. Tískusveiflur í samsetningu og útfærslum eggjanna hafa sést seinustu ár. Hefðbundin súkkulaðiegg eru þó enn ráðandi á markaðnum.

Framleiðsla á eggjunum hefur staðið yfir allt frá því fyrir áramót. Páskarnir eru  sannkölluð vertíð í sælgætisverksmiðjum. Tegundirnar skipta tugum og súkkulaðimagnið er talið í hundruðum tonna. Fjöldi framleiddra eggja er vel á aðra milljón. Þessi siður, að gæða sér á súkkulaðieggi um páska, á sér langa sögu hér á landi.

„Hann kemur erlendis frá í gegnum Danmörku, bert hingað í kringum fyrri heimsstyrjöldina og breiðist út upp úr fyrri heimsstyrjöld. Þetta er svolítið fyndið að Íslendingar voru að byrja að borða egg almennt á svipuðum tíma súkkulaðiegg og egg eru bara samofinn hér á landi. Upphaflega voru þetta bakaríin sem voru að framleiða eggin, svo fara súkkulaðiverksmiðjurnar að taka yfir upp úr 30, þá fer þetta virkilega á skrið,“ segir Auðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs  Nóa Síríus.

Hraunrennsli í Geldingadölum hefur verið áberandi undanfarið en það setur einnig svip sinn á sælgætisframleiðsluna.

„Þetta er rosalegt hraunár, það er gos í hrauninu, og ég með hraunið og bakararnir með hraunið. Ég bara skil ekkert í þessu,“ segir Helgi Vilhjálmsson, oftast kenndur við Góu.

Íblöndun ýmissa bragðbæta í súkkulaðiskelina hófst fyrir um  15 árum hér á landi þegar rís var í fyrsta sinn  blandað saman við skelina.

„Þar má segja að þetta byrji, 2 árum síðar kemur Draumaegg, þar er lakkrískurli blandað saman við súkkulaðiskelina og þá verður allt vitlaust. Þar má segja að eftir að Draumaeggin koma til sögunnar hafi bylgjan hafist. Það eru kröfuharðir neytendur þarna úti sem eru alltaf að leita að einhverju nýju, og einhverju góðu,“ 

Svo að þið berið ábyrgð á þessari sullbylgju?

„Já, það má segja það,“ segir Pétur Thor Gunnarsson framkvæmdastjóri Freyju.

Þrátt fyrir það virðist sígilt súkkulaðiegg enn bera höfuð og herðar yfir önnur egg á markaðnum. Sumum finnst stærð eggjanna skipta máli, en þar er ekki alls sem sýnist.

Egg sem er númer 7 hjá þér, er það eins hjá öðrum framleiðendum númer 7? 

„Nei þetta eru bara númerin. Ég veit ekki af hverju númerin urðu til í staðinn fyrir bara grömmin. Nú er bæði grömm og númer. Þetta varð bara til,“ segir Helgi.

En sumir kjósa einfalda hluti.

„Við erum að koma með hreint egg, sem er ekki með neitt í skelinni, hreint mjólkursúkkulaðiegg,“ 

Bara aftur í grunninn?

„Aftur í grunninn og aftur þar sem þetta byrjaði allt saman,“ segir Þorsteinn.

Tilraunamennskan virðist ekki eiga sér nein takmörk.

„Út úr því kemur ýmislegt gott, stundum vont. Það fer aldrei á markaðinn.“ segir Helgi léttur í bragði.