Krefst brottvikningar Róberts Wessman

Náinn samstarfsmaður Róberts ber hann þungum sökum í bréfi til stjórnar Alvogen.
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
„Ég tel að morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir, er varða meinta óvildarmenn og ærumeiðingar í þeirra garð, sé í raun óverjandi hegðun forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja.“

Þetta eru orð Halldórs Kristmannssonar, náins samstarfsmanns Róberts Wessman, forstjóra og stjórnarformanns Alvogens. Halldór sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hann staðfestir að vera sá starfsmaður sem sendi bréf til stjórnar félagsins í janúar, þar sem hann sagðist hafa persónulega upplifað, orðið vitni að og skjalfest fjölda tilfella af alvarlegu einelti og áreitni á vinnustaðnum af hálfu forstjórans. Þess var krafist að Róberti yrði vikið frá störfum.

Í ársbyrjun 2016 sendi Róbert Wessman til að mynda tveimur stjórnendum í lyfjaheiminum og fyrrum samstarfsmönnum hjá Actavis, langa röð heiftúðugra smáskilaboða, eftir að þeir höfðu borið vitni í máli sem rekið var á Íslandi og hann átti aðild að. Vitnisburðurinn var honum greinilega ekki að skapi, því hann hótaði þeim og fjölskyldum þeirra öllu illu.

  • „Ég geng frá þér og skal hafa fyrir því að kála þér.“
  • „Hæ, drullusokkur, ég rústa þér og fjölskyldu þinni.“
  • „Næst þegar við verðum í sömu borg skaltu fela þig, skítakleprinn þinn.“

...er meðal þess sem má sjá í skilaboðunum, sem send voru yfir nítján klukkustunda tímabil.

Fleiri dæmi eru tínd til, sem Halldór telur sanna að forstjórinn beri ábyrgð á viðvarandi eineltis- og ofbeldismenningu innan fyrirtækisins. Til dæmis hafi Róbert verið staddur í samkvæmi erlendis þegar hann hafi kýlt einn úr hópnum kaldan án nokkurs aðdraganda. Að þessu voru yfir 30 vitni, segir í skjölunum.

Rót ósættis þeirra Róberts segir Halldór liggja í þeirri kröfu forstjórans að Halldór beitti fjölmiðli sem hann átti, til að koma höggi á menn sem Róberti er illa við.

Í yfirlýsingunni segir meðal annars:

„Ég taldi fulla ástæðu til þess að setja fótinn niður og tjáði Róbert ítrekað, að ég myndi ekki beita mér fyrir því að koma höggi á umrædda aðila í fjölmiðlum og vega beinlínis að æru og mannorði þeirra, eins og hann vildi. Ég var um tíma útgefandi Mannlífs, sem Róbert fjármagnaði og átti, en þar myndaðist til að mynda mikill ágreiningur um ritstjórnarstefnu og sjálfstæði.“

Í yfirlýsingu sem stjórn Alvogens sendi frá sér nýlega segir að alþjóðleg lögfræðistofa hafi farið ítarlega yfir kvartanirnar. Niðurstaðan sé að engin gögn bendi til þess að eitthvað sé athugavert við stjórnarhætti Róberts og því engin ástæða til að aðhafast neitt vegna þessa máls.

Andreas Rummelt, stjórnarmaður Alvogens er sagður veita nánari upplýsingar. Þegar fréttastofa náði sambandi við Rummelt vildi hann hins vegar ekki svara neinum spurningum vegna málsins og ekki veita aðgang að skýrslu lögfræðistofunnar. Róbert Wessman hafnaði sömuleiðis viðtalsbeiðni fréttastofu.

Halldór segir um þessa niðurstöðu rannsóknarinnar að hún sé „augljós „hvítþvottur“ undir áhrifum Róberts“. Hann vonist hins vegar til þess að bæði Alvogen og Alvotech blómstri í framtíðinni, enda sé hann sjálfur hluthafi í fyrirtækjunum.

Fréttin hefur verið uppfærð með ítarlegri upplýsingum.

29.03.2021 - 08:35