Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hraunflæðið stöðugt en breytingarnar eru útlitslegar

Mynd: RÚV / RÚV
Eldgígarnir í Geldingadölum í Fagradalsfjalli hafa smátt og smátt verið að breytast alveg síðan eldgosið hófst föstudaginn 19. mars. Einna mestu breytingarnar urðu aðfaranótt sunnudagsins 28. mars þegar nyrðri gígurinn opnaðist til vesturs.

Vefmyndavél RÚV sem horfir yfir eldstöðvarnar frá Fagradalsfjalli sér nú ofan í gígana þaðan sem hraunsletturnar teygja sig og hlaða upp gígbarmana.

Gígbarmurinn hrundi milli fjögur og fimm aðfaranótt sunnudags. Á myndskeiðinu hér að ofan má sjá breytinguna á gígnunum frá laugardegi til sunnudags.

Breytingarnar á eldstöðinni hafa hins vegar helst verið útlitslegar því samkvæmt mælingum hefur hraunflæðið úr gígunum ekki breyst mikið. Á föstudag höfðu 3,2 milljón rúmmetrar af hrauni runnið í Geldingadölum. Hraunflæmið stækkar um rétt tæpan hálfa milljón rúmmetra á sólarhring.

Á vef jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands má lesa að rennslið úr gígunum hafi verið mjög stöðugt; nærri 5,5 rúmmetrar á sekúndu. Fyrsta hálfa sólarhring gossins var rennslið 7-8 rúmmetrar á sekúndu.

Hraunið hefur verði kortlagt 10 sinnum frá því að gosið hófst fyrir rúmri viku. Fjórar mismunandi aðferðir hafa verið notaðar til þess að kortleggja þetta nýja hraun:

  • Fjórum sinnum hafa myndir verið teknar lóðrétt niður á hraunið. Úr þeim myndum hefur svo verið unnið landlíkan úr myndunum.
  • Pléiades-gervitungl frönsku geimvísindastofnunarinnar hefur gefið þrjár mælingar. Gervitunglið fer yfir Ísland að minnst kosti einu sinni á dag en vegna skýjahulu hafa ekki fengist fleiri myndir.
  • Mælingaflugvél ISAVIA, TF-FMS, hefur gefið tvær mælingar. Flugvélin er búin kerfi sem tengir saman GPS-staðsetningar og flughæðarmæli. Þetta kerfi er hugsað fyrir mælingar á yfirborði jökla en getur nýst í verkefni eins og þetta.
  • Ein mæling var gerð laugardaginn 20. mars, daginn eftir að gosið hófst, með nákvæmum leysisskanna. Sá skanni er til dæmis notaður til þess að kortleggja snjóflóðahlíðar og skriður.

Fjöldi stofnana og fyrirtækja starfa saman við að kortleggja hraunið og rennslið úr eldstöðinni. Hér á landi eru það Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofan, ISAVIA og Almannavarnir.