Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vígamenn ná völdum í norðanverðu Mósambík

28.03.2021 - 05:32
Mynd með færslu
 Mynd: Ronny K - Pixabay
Vígahreyfing íslamista náði völdum í bænum Palma í norðanverðu Mósambík eftir fjögurra daga umsátur. AFP fréttastofan hefur eftir starfsmanni öryggissveita í Mósambík að stjórnarherinn hafi hörfað frá bænum í gær.

Íslamistar hafa herjað á norðurhluta Mósambík síðustu þrjú ár. Með árásinni á Palma eru þeir komnir nálægt olíulindum sem nýverið var byrjað að vinna úr. Franska olíufyrirtækið Total stöðvaði vinnslu þar fyrir nokkru vegna aukinna árása vígamanna, en ætlaði að hefja vinnslu að nýju á miðvikudag. Skömmu síðar hófu vígamenn árásir á nýjan leik. 

Skelfingu lostnir íbúar Palma flýðu inn í skóg, en starfsmenn olíuvinnslunnar og opinberir starfsmenn leituðu skjóls á hóteli í bænum. Um 200 manns voru á hótelinu, og voru um 80 þeirra sótt á herjeppum í gær. Setið var fyrir þeim og voru einhverjir myrtir en aðrir náðu að flýja að sögn AFP. Þeim sem eftir voru á hótelinu var komið inn í herskála við ströndina, og siglt þaðan á ótilgreindan stað.

Yfirvöld í Mósambík hafa ekki viljað tjá sig um málið. Omar Saranga, talsmaður varnarmálaráðuneytisins, bað fólk um að halda ró sinni og fylgja leiðbeiningum yfirvalda. Í yfirlýsingu ráðuneytisins á fimmtudag sagði að vígamennirnir hafi gert samhæfðar árásir úr þremur áttum.

Enginn vígahópur hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni. Síðustu árásir á nærliggjandi svæðum hafa verið gerðar af sveitum tengdum hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV