Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Veröld manneskjunnar andspænis veröld stórfyrirtækja

Mynd: - / Cor cordium

Veröld manneskjunnar andspænis veröld stórfyrirtækja

28.03.2021 - 15:00

Höfundar

Nomadland er stórkostleg kvikmynd, bæði tímalaus og nútímaleg, um farandverkafólk í Bandaríkjunum, segir Gunnar Theodór Eggertsson gagnrýnandi.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Nomadland, í leikstjórn Chloé Zhao sem skrifar jafnframt og klippir myndina, fjallar um samfélag eldri Bandaríkjamanna sem keyra um landið á húsbílum og taka að sér árstíðabundin störf, rétt eins og hirðingjaþjóðir fyrri alda. Frances McDormand leikur Fern, ekkju sem bjó árum saman í verksmiðjubænum Empire í Nevada – bæ sem hefur nú breyst í draugabæ eftir að verksmiðjan þar lokaði og allir fluttu burt. Fern býr í bílnum sínum og ferðast hingað og þangað í leit að vinnu, staldrar stutt við á hverjum stað, en kynnist alls kyns fólki og eignast vini sem eru í svipaðri stöðu. Hún kemst m.a. í kynni við samfélag bílbúa – „van-dwellers“ – sem hittast árlega úti í auðninni í Arizona. Við fylgjum Fern eftir á ferðalaginu og fáum þar með innsýn í Bandaríki 21. aldarinnar frá óvenjulegu sjónarhorni.

Nomadland hefur rakað saman verðlaunum upp á síðkastið – Gullna ljónið í Feneyjum, bestu mynd hjá verðlaunum kvikmyndagagnrýnenda í Chicago, Houston, Boston, Toronto og víða annars staðar, og nú síðast hlaut myndin fjögur Golden Globe verðlaun, fyrir bestu mynd, leik, handrit og leikstjórn, og enn fremur er hún tilnefnd til fjögurra Óskarsverðlauna. Nomadland er líka stórkostleg mynd. Hún er bæði tímalaus og afar nútímaleg – sögusviðið er Bandaríkin árið 2012, í eftirmálum kreppunnar 2008, og sagan er hin hliðin á bandaríska draumnum. Hér kynnumst við fólkinu sem missir allt þegar verksmiðjurnar loka – sem hefur eytt ævinni í að vinna fyrir stórfyrirtæki og á samt ekkert. Þetta er næstum allt saman eldra fólk sem hefur gefist upp á „venjulegu“ borgaralegu lífi, af ólíkum ástæðum en oftast af sárri neyð. Fern missti bókstaflega bæinn sinn, aðrir hafa ekki efni á hefðbundnum húsakosti og búa því í bílnum sínum. Ein er dauðvona og vill frekar nýta síðustu mánuðina frjáls á vegum úti heldur en föst í biluðu heilbrigðiskerfi. Flestir fá einfaldlega hvergi fasta vinnu og þurfa því að reiða sig á tímabundin störf úti um hvippinn og hvappinn. Í stað hringrás náttúrunnar sem hirðingjar stilltu sig inn á áður fyrr, þá er þetta fólk stillt inn á hringrás stórfyrirtækjanna og vita hvar hægt er að finna vinnu eftir árstíðum.

En þarna hefur myndast fallegt samfélag og þrátt fyrir einveru, sorg og missi sem fylgir flestum þeirra, þá heldur fólkið í jákvæðni og finnur fegurðina í lífinu, í náttúrunni, á ferðalaginu. Maður er manns gaman og hópurinn sem Fern kynnist er eins og sannkölluð hirðingjaþjóð. Þannig endurspeglar myndin djúpar mannlegar tilfinningar sem komast til skila á afar fallegan hátt með næmri leikstjórn Chloé Zhao. Stundum fannst mér eins og Fern væri til í tveimur heimum – annars vegar veröld stórfyrirtækjanna sem þykjast eiga allt nú á dögum, og hins vegar veröld mannskepnunnar sem hefur ferðast í gegnum hringrás árþúsundanna síðan löngu fyrir upphaf borgarsamfélagsins. Þetta endurspeglast myndrænt séð út í gegn og Zhao leikur sér með hliðstæður hins gamla og nýja á ferðalagi aðalpersónunnar. Í upphafi myndar vinnur Fern í ógnarstórri verksmiðju Amazon-samsteypunnar og tekur að sér störf fyrir verslunarkeðjur og í stóriðju, en þess á milli eru ótal skot af henni innan um víðáttu og forneskju landslagsins, eyðimerkur og fjöll, ævaforn tré í eldgömlum skógi, jarðfræðilegar minjar, náttúrufriðland og meira að segja ógnarstóra styttu af risaeðlu. Allt minnir þetta á smæð manneskjunnar í samhengi sögunnar og hvernig líf einnar farandverkakonu bergmálar langt, langt aftur í tímann.

Nomadland fylgir ekki hefðbundinni dramatískri uppbyggingu, hér eru engin stór og mikil átök, heldur endalaus hringur og innri átök sem birtast meðal annars í stórkostlegum leik Frances McDormand og svipbrigðum hennar sem breytast stöðugt eftir því við hvern hún talar, eða þegar enginn sér til. Öllum persónum fylgir auðvitað drama, en það er undir yfirborðinu, ósagt og samofið söguefninu. Nomadland er sannkölluð vegamynd – kvikmyndategund sem hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér – og sækir þar að auki fagurfræðileg áhrif til bandarískra vestra, nokkurs konar íhugull nýbylgjuvestri. En hún sækir ekki síður áhrif til heimildamynda og stemningin er á köflum svo natúralísk að ég þurfti að minna mig á að þetta væri skálduð mynd. Mörkin eru líka frekar óljós, eins og ég komst að eftirá – handritið byggir jú á sannsögum úr bókinni Nomadland: Surviving America in the 21st Century eftir Jessicu Bruder, en þar að auki eru margar persónurnar í myndinni raunsannar og leiknar af alvöru nútimahirðingjum sem koma fram undir sínum eigin nöfnum – Linda May, Swankie og bílagúrúinn Bob Wells leika öll skáldaðar útgáfur af sjálfum sér. Ofan á þetta allt saman má geta þess að kvikmyndagerðarfólkið bjó í húsbílum á meðan á tökum stóð, þar á meðal McDormand og Zhao, og gerði því myndina á ferðalagi, á vegum úti.

Zhao hefur annars gert tvær myndir sem ég hef ekki séð, Songs My Brother Taught me og The Rider, en það var sú síðarnefnda sem vakti athygli Frances McDormand og gerði að verkum að Zhao var boðið að leikstýra Nomadland. Og nú hefur Zhao vakið athygli Disney og framundan er ógnarstórt stökk frá lágstemmdri kvikmyndagerð yfir til Marvel-myndasagnanna, því ofurhetjumyndin Eternals er væntanleg í árslok 2021 með Chloé Zhao í leikstjórastólnum og áhugavert verður að sjá hvernig hún nálgast þann efnivið.

Nomadland var frumsýnd hér á landi fyrr í mánuðinum, þótt lítið fari fyrir henni í bíó – ég sá hana í sal 4 í Háskólabíó og það var sannarlega þess virði, þótt salurinn sé lítill, að sjá hana á breiðtjaldi, því saga farandverkakonunnar Fern er listileg kvikmyndagerð, einföld en marglaga frásögn og eftirminnilegt ferðalag um bæði kunnuglegar og framandi slóðir.