Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Veðrið og jarðskorpan hjálpa íslenskum húsum

Í nokkrum vel völdum kjöllurum í Grindavík hefur verkfræðingur komið fyrir jarðskjálftamælum. Þeir sýna nákvæmlega hversu miklir kraftar skekja húsin í stórum skjálftum. Ótal smáskjálftar yfir lengri tíma eru ekki taldir geta valdið tjóni á húsum eða lögnum. Sviðsmyndir almannavarna gera enn ráð fyrir því að skjálfti upp á allt að 6,5 geti orðið í Brennisteinsfjöllum. Íslensk hús standast vel jarðskjálfta, þó að þau hafi ekki öll verið byggð í samræmi við nýjustu staðla.

Sýna nákvæmlega áraunina á húsin

Mælarnir eru á víð og dreif um bæinn og ef það kemur skjálfti taka þeir að hristast, einn af öðrum. Á tölvuskjánum er þannig hægt að sjá hvaðan og hvernig bylgjan berst yfir bæinn. Benedikt Halldórsson, jarðskjálftaverkfræðingur hjá Háskóla Íslands og Veðurstofunni segir að mælunum líði best ofan í kjöllurum, þannig að aðeins þunnt lag af steinsteypu skilji þá frá undirlaginu. „Með því að hafa jarðskjálftamælana svona neðarlega þá mæla þeir í rauninni hreyfinguna áður en hún fer upp í bygginguna, þessar mælingar eru þess eðlis að þetta sýnir okkur nákvæmlega hver áraunin er sem húsið þarf að standast í jarðskjálftanum.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Benedikt Halldórsson.
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Mælir í kjallara grunnskólans í Grindavík

Ekki uppsöfnuð áhrif

Hús á Reykjanesskaga hafa síðustu mánuði sveiflast örlítið til og frá, oft á dag, svo fór að gjósa og þá slaknaði á jarðskorpunni. En er í lagi með húsin eftir allan þennan titring? Sérfræðingar eru sammála um að stöðugir skjáfltar upp á tvo eða þrjá hafi lítil sem engin áhrif á lagnir og veggi. „Þessir litlu skjálftar eru hreinlega með svo litlar hreyfingar í för með sér að það ógnar hvorki burðarvirkjum né innviðum svo neinu taki,“ segir Benedikt. 

Það eru stærri skjálftarnir sem geta valdið usla en meira að segja í Suðurlandsskjálftanum 2008 sluppu lagnirnar vel. Sá skjálfti var 6,3 og yfir 20 sinnum öflugri en stærsti skjálftinn í nýafstaðinni hrinu á Reykjanesskaga.

Jarðskjálftar eru mældir á lógariþmískum skala, skjálfti af stærðinni 6 er þannig 30 sinnum stærri en skjálfti af stærðinni 5. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Dæmi um orkuútleysingu skjálfta af stærð þrjú og stærð fjögur borin saman.

Enn hætt við stórum skjálfta í Brennisteinsfjöllum

Vísindaráð almannavarna telur enn líkur á því að skjálfti upp á allt að 6,5 ríði yfir í Brennisteinsfjöllum, þar hefur byggst upp spenna undanfarin ár og gosið í Geldingadölum hefur ekkert létt á henni. „Ef hann er í bakgarðinum hjá þér þá náttúrulega reynir á húsin og þau gætu eitthvað farið að skemmast, og það koma örugglega einhverjar sprungur ef hann er mjög nálægt en ef við erum komin í Brennisteinsfjöll sem eru líklegasti skjálftinn fyrir höfuðborgarsvæðið 6,5 þá eru fjarlægðir orðnar það mikið að húsbyggingar væru ekki að skemmast að neinu ráði, það yrðu einhverjar sprungur á víð og dreif, mikið af smátjóni sem myndi safnast saman upp í háar upphæðir þegar við horfum á allan byggingamassann á höfuðborgarsvæðinu en heilt yfir væri þetta lítið tjón á hverri eign,“ segir Bjarni Bessason, prófessor við umhverfis- og byggingaverkfræðideild Háskóla Íslands. Hann segir að auðvitað geti verið undantekningar, hús sem skemmist meira en önnur, en það séu þá hús sem séu illa byggð eða hafi fengið lélegt viðhald. 

Lítill munur á tjóni eftir aldri húsa

Í Evrópu eru mörg dæmi um að hús hrynji við skjálfta upp á sex. Síðast í Króatíu í desember. Þar eru húsin oft hlaðin en hér eru húsin sterkari og um 80% bygginga steinsteyptar og járnbentar.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Bjarni Bessason.

Það var samt ekki fyrr en 1958 sem farið var að huga að því að byggja íslensk hús þannig að þau stæðust jarðskjálfta og kröfurnar hafa farið stöðugt vaxandi síðastliðin ár. Evrópustaðlar eru uppfærðir reglulega. „Það sem skeði í Suðurlandsskjálftunum 2000 og 2008, það er mikinn lærdóm að sækja í tjón sem varð þá, þá var ekki mikill munur á því hvort hús var byggt í gær eða fyrir þrjátíu eða fjörutíu árum,“ segir Bjarni. 

Minni kröfur gerðar til húsa á Suðurnesjum

Staðlar gera ráð fyrir sterkari burðarvirkjum í húsum á Suðurlandi en á Suðurnesjum. Benedikt segir hús á Reykjanesskaga ekki þurfa að þola jafnsterka skjálfta og hús á Suðurlandi því jarðskjálftabylgjur þar geti ekki gert jafnmikinn usla. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Reykjanesbær

Sterk þrátt fyrir að vera ekki byggð eftir stöðlum

Bjarni segir að þó einhverjar sprungur myndist sé langt í að hús missi burðarþol. Hús skemmdust nokkuð í Suðurlandsskjálftunum árið 2008 en það voru aðallega útlitsskemmdir, lagnir sluppu vel og engin dæmi voru um að íbúðarhús hryndu. Burðarvirki húsa héldu líka í stóra skjálftanum rétt við Kópasker 1976, sem var yfir sex að stærð. „Það eru þá aðrir þættir sem hafa verið ráðandi við húsbyggingar sem voru þá meira ráðandi sem mótstaða við jarðskjálftahreyfingunum heldur en jarðskjálftahönnunin sem slík,“ segir Benedikt. Meira segja árið 1929, þegar síðast varð stór skjálfti í Brennisteinsfjöllum, stóðu hús í Reykjavík keik. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tjón eftir Suðurlandsskjálftana 2008.

Mölbrotin skorpa hefur áhrif á hvernig skjálftar finnast

Það hjálpar að eldri hús á Íslandi eru byggð til að þola veður og vinda, veggirnir eru þykkir og þökin almennt létt og því má segja að húsin eigi auðveldara með að ná jafnvægi á ný, eftir stóra skjálfta. Gerð jarðskorpunnar getur líka hjálpað. „Af því að jarðskorpan er mjög brotin er talið að það geri það erfiðara fyrir bylgjurnar að ferðast og drífa lengra,“ segir Benedikt. 

Vegna þess hversu mölbrotin jarðskorpan er finnast skjálftar hér öðruvísi en á jarðskjálftasvæðum erlendis. Þeir eru snarpari nær upptökunum en fjara líka hraðar út.  

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV