Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Suðurstandarvegi lokað: „Það fara ekki fleiri á svæðið“

28.03.2021 - 21:36
Laugardagskvöld 20. mars 2021 við eldstöðvarnar í Geldingadölum í Fagradalsfjalli. Margir lögðu leið sína á fjallið til að berja gosið augum. Rúnar Ingi tók þessar myndir.
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum lokaði fyrir umferð um Suðurstrandarveg að gosstöðvunum í Geldingadölum klukkan níu í kvöld og nú hefur fjölda fólks verið vísað frá. Svæðið verður svo rýmt fyrir miðnætti. Þetta er gert til að hvíla björgunarlið sem hefur staðið vaktina í rúma viku. Hjálmar Hallgrímsson, aðgerðastjóri og lögreglumaður á Suðurnesjum, segir að nokkur þúsund manns hafi farið að gosstöðvunum í dag.

„Það þurfti að vísa bílum frá, öll bílastæði eru full. Og nú er fólk farið að ganga úr Grindavík og þeim verður snúið við. Það fá ekki fleiri að fara inn á svæðið. Nú erum við að bíða eftir að fólk komi til baka, fari í bílana sína og heim,“ segir hann. 

Hvað heldurðu að séu margir á svæðinu núna?

„Það er erfitt að giska á það. Ég fór þarna upp eftir í dag, þetta eru hundruð manna. Einhverjar þúsundir hafa komið þarna í dag. Það er mjög mikið uppi á svæði ennþá. Það er þannig að fólk vill skoða þetta í myrkri. Fólk er að leggja af stað núna labbandi fyrir utan lokun, jafnvel með börn með sér. Það er bara glórulaust, eitthvað sem við viljum ekki sjá. Við verðum líka að gefa björgunarsveitarfólkinu okkar frí. Við getum ekki staðið vakt fram á nótt, við ráðum bara ekki við það,“ segir Hjálmar.

Hann segir að enn sé óljóst hvenær verði opnað á ný en sennilega á morgun. „Það fer allt eftir veðurfari en líka hvernig reykinn ber yfir gossvæðið,“ segir hann.