Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Notkun á flestum ópíóíðum dróst saman á síðustu árum

28.03.2021 - 12:59
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Notkun ópíóíða á Íslandi er enn talsvert meiri en annars staðar á Norðurlöndunum, þrátt fyrir að dregið hafi úr henni hér á landi á síðastliðnum árum. Þetta kemur fram í nýjum talnabrunni embættis landlæknis.

Lengri bið eftir skurðaðgerðum og meira oxýkódón

Á síðustu þremur árum hefur þeim fækkað umtalsvert sem fá ávísað lyfjum í flestum undirflokkum ópíóíða hér á landi, að oxýkódóni undanskildu, en á síðustu sjö árum varð þreföldun í fjölda þeirra sem leystu út oxýkódón eða oxýkódón í blöndu með naloxóni. Aukningin virðist að mestu leyti vera bundin við elstu aldurshópana og var sérstaklega mikil árið 2020. Í talnabrunni landlæknis segir að hún kunni að skýrast af lengri biðtíma eftir skurðaaðgerðum sem er tilkominn vegna heimsfaraldursins. 

Eldra fólk er líklegra en yngra til að nota ópíóíða og næstum 35 prósent fólks á aldrinum 80 ára og eldri notuðu slík lyf árið 2020. 

Konur nota frekar ópíóíða en karlar

Þá eru konur líklegri en karlar til að nota ópíóíða. Á síðasta ári fengu 184 af hverjum þúsund konum ávísað ópíóíðum en 131 af hverjum þúsund körlum. Og körlum sem leysa út ávísun á ópíóíða hefur fækkað hlutfallslega meira en konum á síðustu árum eða um tuttugu og fjögur prósent frá árinu 2016, en konum um tuttugu og eitt prósent. 

Í talnabrunni landlæknisembættisins er samdráttur í notkun ópíóíða hér á landi meðal annars rakinn til breytingar á reglugerð um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja sem tók gildi um mitt ár 2018. Breytingin hafði í för með sér að nú má afgreiða að hámarki 30 daga skammt af eftirritunarskyldum lyfjum, eins og ópíóíðum, í einu en ekki hundrað daga skammt eins og áður var.