Norðlægar áttir og frekar kalt

28.03.2021 - 07:48
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Útlit er fyrir norðlæga vinda og heldur kalda víðast á landinu þegar líður á daginn en fram að því eru breytilegri áttir. Hvassast verður norðvestantil á landinu framan af degi með snjókomu eða éljagangi. Útlit er fyrir þokkalegt veður en nokkuð kalt á gosstöðvunum á Reykjanesskaga en upp úr hádegi gæti orðið talsverð gassöfnun í Geldingadölum áður en norðanáttin lætur til sín taka.

Útlit er fyrir norðaustanátt, tíu til átján metra á sekúndu, og snjókomu norðvestantil á landinu. Hægari suðlæg eða breytileg átt í öðrum landshlutum og él á víð og dreif, en úrkomulítið á Austurlandi. Frost allt að fimm stig, en frostlaust við suður- og austurströndina.

Vindur snýst í norðan átta til fimmtán í kvöld og nótt, fyrst vestantil. Él og skafrenningur norðantil en léttskýjað sunnanlands. Herðir heldur á frosti.

Á mánudag verður stíf norðanátt og él norðanlands, hægari vindur og víða léttskýjað á þriðjudag. Kalt í veðri. Síðan er útlit fyrir ákveðna vestanátt og hlýnandi veður. Bjartviðri austantil, en skýjað og úrkomulítið vestantil á landinu. Á laugardag er útlit fyrir mjög kalda og hvassa norðanátt með éljum norðantil en bjartviðri sunnan jökla.

Pistill veðurfræðings a vakt er svohljóðandi:
„Í dag er áfram búist við hvassri norðanátt og snjókomu eða éljagangi á norðvestanverðu landinu. Austantil er hægari suðlæg átt og yfirleitt þurrt en suðvestanlands hæg breytileg átt en líkur á éljum. Víða verður fremur kalt í veðri, en frostlaust við suður og austurströndina. Síðdegis gengur í norðanátt á landinu öllu, fyrst vestantil. Þá er viðbúið að fari að snjóa norðaustantil en almennt léttir til sunnan jökla. Á gosstöðvunum á Reykjanesskaga er útlit fyrir þokkalegasta veður í dag, þó þar verði kalt og stöku él. Upp úr hádegi gæti orðið talsverð gassöfnun í Geldingadölum, áður en vindur snýr sér til norðurs og er fólki þá bent á að halda sig ofarlega í hlíðunum ofan gossins eða uppi á hryggjunum. Á morgun er norðan og norðvestanátt í kortunum með éljum norðantil fram eftir degi en síðan úrkomulitlu veðri.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV