Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kosningar á Grænlandi

Mynd: KNR-grænlenska ríkissjónvarpi / KNR
Grænlendingar ganga að kjörborðinu þriðjudaginn eftir páska. Boðað var til kosninga þó að kjörtímabilið renni ekki út fyrr en eftir rúmt ár, síðast var kosið á vormánuðum 2018. Bogi Ágústsson fjallar um grænlensk stjórnmál og ræðir við Kristjönu Guðmundsdóttur Motzfeldt sem þekkir afar vel til. Hún er ekkja Jonathans Motzfeldts, sem var meðal annars fyrsti formaður landsstjórnar Grænlands eftir að Grænlendingar fengu að hluta til stjórn eigin mála árið 1979.

Bæði kosið til þings og sveitastjórna

Grænlendar kjósa bæði til þings og sveitarstjórna 6. apríl, en þingkosningarnar hafa vakið meiri athygli. 31 þingmaður situr á Inatsisartut, Landsþinginu í Nuuk, og þingsætin skiptast á milli sjö stjórnmálaflokka. Það vekur athygli að færri konur bjóða sig fram til Grænlandsþings nú en 2018, 56 konur og 133 karlar. Konur eru sem sagt innan við þriðjungur frambjóðenda en hlutfallið í sveitastjórnarkosningunum er nánast það sama. 

Vinstrislagsíða í grænlenskum stjórnmálum

Ekki verður sagt annað en að vinstrislagsíða sé á grænlenskum stjórnmálum því tveir stærstu flokkarnir, Siumut og Inuit Ataqatigiit eða IA eru báðir vinstri flokkar. Siumut er hefðbundinn jafnaðarmannaflokkur, af íslenskum flokkum líkist IA helst Vinstri-grænum. Þessir flokkar hafa skipst á að fara með stjórnarforystu síðan Grænlendingar fengu að hluta til stjórn eigin mála. Siumut hefur vinninginn, flestir leiðtogar landsstjórnar Grænlands hafa komið úr Siumut og hefur svo verið frá 2014 er Kim Kielsen varð formaður landsstjórnarinnar eða forsætisráðherra. Hann hefur verið í forsæti fyrir nokkrar samsteypustjórnir.

Kim Kielsen missti formannssætið

Ástæðu þess að kosningar eru rúmu ári áður en kjörtímabilið er á enda má rekja til þess að Kielsen tapaði formannskjöri í Siumut í nóvember. Það hafði lengi verið nokkur óánægja í Siumut með Kielsen en tap hans kom samt á óvart. Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt segir að Kielsen sé lítið fyrir að koma fram, hann hafi þó alltaf eitthvað til málana að leggja þegar hann taki til máls. Kristjana segir og að stjórnin hafi verið veik.

,,Kim er einfari"

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, þekkir vel til grænlenskra stjórnmála. Össur var formaður nefndar sem gerði skýrsluna „Samstarf Íslands og Grænlands á nýjum Norðurslóðum“ að beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Rætt var við Össur fyrr á árinu á Morgunvaktinni á Rás 1 og þá sagði að Kielsen væri fámáll og þögull einfari og sem ekki hefði byggt klíku eða hirð í kringum sig.

Óánægjan með ýmsar ákvarðanir

En óánægjan með Kielsen í flokki hans, Siumut, var ekki bara vegna þess að hann er einfari, margar ákvarðanir hans höfðu vakið óánægju og mótmælafundir voru haldnir í höfuðstaðnum Nuuk síðasta haust. Sex af tíu þingmönnum Siumut lýstu vantrausti á Kielsen og kröfðust afsagnar hans fyrir tveimur árum. Þingmennirnir sex og einn ráðherra Siumut sögðu í yfirlýsingu að Kielsen hefði vanvirt þingið og kjósendur og tekið ýmsar ákvarðanir þvert á stefnu flokksins.

Kielsen býðir sig aftur fram

Kim Kielsen ætlar að bjóða sig fram aftur þó að hann hafi tapað formennskunni í Siumut, segist telja sig skuldbundinn kjósendum til að standa sína plikt. Kielsen nýtur enn víðtæks stuðnings og Össur varaði við því að afskrifa hann. Hann væri ólseigastur allra pólitískra dráttarklára á Grænlandi.

Nýr leiðtogi Siumut ólíkur fyrirrennurum sínum

Nýr leiðtogi er Erik Jensen. Danski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Martin Breum hefur skrifað margar greinar og bækur um Grænland. Hann sagði í viðtali við danska ríkisútvarpið að Erik Jensen væri ólíkur fyrri leiðtogum sem hafa veitt stjórnum forystu að því leyti að hann væri hvorki fulltrúi sjómanna né veiðimanna, auðvitað vilji Jensen fá atkvæði sjómanna og veiðimanna, en bakgrunnur hans sé annar, hann hafi verið stjórnandi í stóru fasteignafélagi í mörg ár og að þessu leytinu ólíkur fyrri leiðtogum.

Hallarbylting í Siumut

Öll stjórn Siumut er skipuð nýju fólki, Vivian Motzfeldt og Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen voru kjörnar varaformenn. Inga Dóra er hálf-íslensk. Það má því segja að eins konar hallarbylting hafi orðið á landsfundi Siumut í nóvember.

Flókin staða í grænlenskum stjórnmálum

Grænlensk stjórnmál eru flókin, það eru tíð skipti á flokkum í stjórn, þannig að þó að Kielsen hafi verið formaður landsstjórnarinnar frá 2014 hefur hann verið í forystu fyrir fjölda samsteypustjórna og nú síðast minnihlutastjórn. Leiðtogar standa gjarna stutt við í embætti, klofningur flokka er algengur, leiðtogar sem verða undir stofna kannski nýja flokka og sumir flokka lifa stutt.

Tveir vinstri turnar

Siumut og Inuit Ataqatigiit, IA, eru helstu keppinautarnir í grænlenskum stjórnmálum og Siumut hefur lengst af farið með forystu í landsmálum. Undantekning er tímabilið frá 2009 til 2013 er Kuupik Kleist var formaður landsstjórnarinnar. Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt segir að flokkarnir hafi farið að líkjast hvor öðrum, í þessum kosningum sé ekki talað um neinn ,,-isma." IA sé lengra til vinstri og Siumut nái inn á miðju stjórnmálanna.

Könnun bendir til sigurs IA

Fram til þessa hefur aðeins ein skoðanakönnun verið gerð á fylgi flokka á þessu ári og hún var gerð áður en kosningarnar voru ákveðnar. Samkvæmt henni var þriðjungur kjósenda enn óákveðinn en niðurstöðurnar benda til verulegrar fylgisaukningar IA, að flokkurinn fengi rúmlega 38 af hundraði atkvæða, bætti við sig fimm þingsætum og fengi 13 þingmenn. Fylgi Siumut minnkar lítillega samkvæmt könnuninni sem spáir samt óbreyttri þingmannatölu eða níu sætum. Samkvæmt könnuninni tapa Demókratar, sem eru mið-hægriflokkur, helmingi þingsæta sinna og sitja eftir með þrjú sæti. Tveir flokkar, sem hafa nú sitt þingsætið hvor, ná ekki kjöri.

Heldur að úrslitin verði lík könnuninni

Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt telur að úrslitin verði ekki ólík könnuninni þó að hún hafi ekki trú á að IA fái 38 prósent atkvæða. Hún telur heldur ekki að Demókratar (Demokratiit) tapi helmingi þingsæta sinna. En hún býst við að IA verði í þeirri stöðu að geta valið að fara í samstarf með Demókrötum eða smáflokknum Naleraq.  

Nýr ungur formaður

Ef IA leiðir næstu ríkisstjórn verður það undir forystu nýs formanns sem er Múte Bourup Egede. Hann fæddist 1987 og er því aðeins 33 ára gamall. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Egede starfað lengi í pólitík, hann var formaður ungliðahreyfingar IA og formaður stúdentaráðs Grænlandsháskóla. Hann hætti námi í sagnfræði til að taka við rekstri fjölskyldufyrirtækis. 

Deilt um námuvinnslu vegna úrans

Eitt af höfuðmálum kosningabaráttunnar er fyrirhuguð námuvinnsla í Kvanefjeldet á suðvesturhluta Grænlands á þeim stað þar sem Íslendingar settust að um árið 1000. Þarna er að finna umtalsvert magn sjaldgæfra og eftirsóttra málma en sá böggull fylgir skammrifi að þarna er einnig úran og það stendur í mörgum Grænlendingum að leyfa úranvinnslu. Össur Skarphéðinsson hefur komið þarna.

Fjall fullt af sjaldgæfum málmum

Þetta er gríðarstór gígtappi, sem hefur storknað mjög hægt, lyfst upp úr jarðskorpunni, snúist þvert, skorinn í tvennt af skriðjökli. Þetta er fjall fullt af sjaldgæfum málmum og af því að þetta storknaði svo hægt þá settist þetta eftir eðlisþyngd. Öðru megin fjarðarins eru svokallaðir léttir sjaldgæfir málmar sem eru vinnanlegir, hinu megin eru þungu málmarnir þar sem úraníum er líka. Um það er deilt.
 

Suður-Grænlendingar eru andvígir námuvinnslu

Össur segir að íbúar á Suður-Grænlandi hafi algerlega snúist gegn námuvinnslunni á síðasta einu og hálfa ári. Fólk sé hrætt við úran og ekki megi gleyma því að á þessu svæði séu helstu landbúnaðarhéruð landsins. Sauðfjárbændur séu í fylkingarbrjósti andstöðunnar.

IA á móti námuvinnslu og klofningur í Siumut

Múte B. Egede og IA eru á móti námuvinnslunni að því er Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt segir. Hún segir að allur flokkurinn sé á móti námuvinnslunni, eins og hann leggi sig. Flokksmenn í Siumut séu klofnir í afstöðu sinni. Grænlenskir flokkar séu sammála um að ekki verði af námuvinnslu nema tryggt sé að hvorki heilsu fólks né umhverfinu stafi hætta af henni. Kristjana segist ekki hafa séð skoðanakönnun um afstöðu Grænlendinga til námuvinnslunnar en hún telji mjög stóran hluta þjóðarinnar vera á móti.

Deilt um fiskveiðar

Fiskveiðar eru einnig deilumál á Grænlandi. Trine Juncker Jørgensen, blaðamaður á Sermitsiaq á Grænlandi skýrði deilurnar í viðtali við danska ríkisútvarpið:

               
Á undanförnum árum hefur verið reynt að ná samkomulagi um nýja fiskveiðilöggjöf, en þar takast á hagsmunir, stórútgerðin vill að hagræða, á móti eru hagsmunir smábátasjómanna og veiðimanna. Hverra hagsmunir eiga að ráða og hvernig eiga lögin að vera, um þetta hefur verið deilt lengi og engin niðurstaða fengist. 

Trine Juncker Jørgensen, blaðamaður á Sermitsiaq

Kristjana segir að staðreyndin sé að smábátasjómenn séu of margir og fái of lítið fyrir aflann. Ekki sé hægt að bera saman íslenska og grænlenska smábátasjómenn. Í Grænlandi séu margi á opnum hraðbátum, einn eða tveir að dorga. Þeir fái einnig mun minna verða fyrir þorskinn en íslenskir smábátasjómenn.

Fjárfestingar, sjálfsmynd og sjálfstæði 

Það má nefna fleiri mál sem rædd eru í kosningabaráttunni, nýir flugvellir, sem eru langmesta fjárfesting sem ráðist hefur verið í á Grænlandi, sjálfsmynd Grænlendinga, hvað það er að vera grænlenskur og náskylt því staða landsins í ríkissambandinu við Danmörku og mögulegt sjálfstæði. 

Flestir sammála um sjálfstæði

Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt segir að flestir flokkar séu sammála um sjálfstæði, Siumut hafi sett málið á oddinn í kosningabaráttunni. Einn séu rúmlega 30 efnisflokkar eftir undir stjórn Dana, þar á meðal stórir efnisflokkar eins og dóms- og lögreglumál, landhelgi og öryggismál. Grænlendingar hafi ekki tekið nein mál yfir síðan sjálfstjórnarlög gengu í gildi árið 2009. Mið-hægriflokkurinn Atassut telur þó ekki að sjálfstæði ætti að vera miðpunktur grænlenskra stjórnmála.

Mikilvægustu kosningar í langan tíma?

Kannanir sýna að rúmlega tveir þriðju hlutar Grænlendinga styðja sjálfstæði, en hvort af því verði á allra næstu árum er alls óvíst. Hverju sem því líður virðist sem þessar kosningar vekji óvenjumikla athygli í Danmörku, þannig hefur danska ríkisútvarpið, Danmarks Radio, boðað mikla umfjöllun um kosningarnar, sem sagðar eru mögulega þær mikilvægustu nokkru sinni.