Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Búin að skera allt niður nema boðskapinn“

28.03.2021 - 18:46
Sóknarprestur í Lindakirkju í Kópavogi fermdi í dag níu börn í þremur athöfnum. Veislur ýmist bíða eða eru með örsniði. Systkini fermingardrengs segja skrítið að fylgjast með honum fermast á Facebook. 

„Ég hef náttúrulega aldrei gert þetta áður“

Þau eru mörg, auðu sætin í fermingarathöfnum þessa dagana, kirkjugestirnir mega ekki vera fleiri en þrjátíu og í fermingarveisluna mega bara koma tíu manns, að hámarki. Logi Guðmundsson, fermdist í Lindakirkju í dag. „Það er bara gaman að geta fermst, geta  haldið deginum og þurfa ekki að fresta þessu fram í ágúst.“

Hann bjóst við því að halda 50 manna veislu í dag. „Þetta var mjög óvænt hvernig þetta poppar allt í einu upp, fjórða bylgjan.“

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Logi Guðmundsson.

Þeir voru þrír, fermingarpiltarnir í athöfninni og Loga fannst það bara fínt. „Ég hef náttúrulega aldrei gert þetta áður þannig að mér fannst þetta bara frekar eðlilegt sko.“

Síðustu helgar hafa fermingar farið fram með nokkuð eðlilegu sniði en eftir að sóttvarnareglur voru hertar, aðfararnótt fimmtudags, blasti ný staða við Guðna Má Harðarsyni, sóknarpresti í Lindakirkju. „Við áttum að vera með þrjár athafnir með 40 börnum núna, það voru 25 sem óskuðu eftir því að halda sig við daginn og þau voru fermd í sjö athöfnum.“

Margir eru auðvitað búnir að láta letra dagsetninguna á sálmabækur og servíettur. „Fyrir okkur er þetta þannig að við erum búin að skera eiginlega allt niður, kórinn og svo við erum búin að stytta athöfnina en boðskapinn höfum við ekki skorið niður, það er það sem skiptir prestinn mestu máli.“

Horfðu á ferminguna á Facebook

Fermingunni var streymt, foreldrarnir og ömmur Loga og afar komu í kirkjuna en systkini hans fylgdust með á Facebook. Þeim fannst það betra en ekkert en samt svolítið skrítið að fá ekki að vera viðstödd í raunheimum. Eftir athöfn komu ömmur og afar heim í veislu, en stærri veisla bíður betri tíma. 

Veiran ítrekað truflað veisluáform

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Úlfur Brjánsson.

 

Dæmi eru um að fermingarbörn hafi beðið býsna lengi eftir því að halda veislu, meira en heilt ár. Úlfur Brjánsson fermdist borgaralega í haust og veislan fyrir föðurfjölskylduna átti að vera í dag. „Því var náttúrulega frestað út af Covid.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fermingarveislu Úlfs er frestað. „Þetta er þriðja skiptið núna, fyrst var það í vor á seinasta ári, svo í kringum ágúst og svo núna.“

Hann vonar að einhvern tímann takist að fagna áfanganum. „Ég er samt ekki alveg viss um það, alltaf þegar við reynum að halda veislu þá sprettur eitthvað svona upp aftur.“

Kjúklingaspjótin dúsa aðeins lengur í frysti og ljóst að fermingarfötin verða ekki þau sömu og lagt var upp með en nú er bara að krossa fingur og vona að það verði einhvern tímann veislufært. Úlfur er allavega orðinn góður í því að sýna þolinmæði, „ég get alveg beðið enn lengur“.