Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bandaríkjamenn og Kanadamaður beitt viðskiptaþvingunum

28.03.2021 - 03:16
epaselect epa08093820 Members of the Uighur community and sympathizers demonstrate on the Dam square in Amsterdam, The Netherlands, 29 December 2019. They are campaigning against what they see as the oppression of the Uighurs in China by the government of that country.  EPA-EFE/REMKO DE WAAL
 Mynd: EPA
Kínversk stjórnvöld bættu í gær tveimur Bandaríkjamönnum, Kanadamanni og kanadískri þingnefnd við þá sem þegar eru beittir viðskiptaþvingunum. AFP fréttastofan greinir frá. Þvinganirnar eru í hefndarskyni vegna viðskiptaþvingana sem Bandaríkin og Kanada lögðu á einstaklinga og stofnanir í Kína vegna framkomu stjórnvalda í garð Úígúra. 

Þau Gayle Manchin og Tony Perkins, nefndarfólk í bandarískri nefnd um alþjóðlegt trúfrelsi, kanadíski þingmaðurinn Michael Chong og mannréttindanefnd kanadíska þingsins voru sett á refsilista stjórnvalda í Peking í dag. Þeim er meinaður aðgangur til Kína, Hong Kong og Macau, að sögn kínverska utanríkisráðuneytisins. Auk þess verður þeim bannað að stunda viðskipti við kínverska einstaklinga og stofnanir.

Chong sagðist ætla að taka viðbrögðum Kínverja sem sæmdarmerki. Hann skrifaði á Twitter að það væri skylda hans að láta í sér heyra vegna aðgerða Kínverja í Hong Kong og gagnvart Úígúrum. „Við sem lifum frjáls í lagaumhverfi lýðræðisríkja verðum að láta í okkur heyra fyrir þá raddlausu," skrifaði hann.

Kínverska utanríkisráðuneytið sakar Bandaríkin og Kanada um að beita viðskiptaþvingunum á grundvelli sögusagna og upplýsingafölsunar. Um ein milljón Úígúra og fleiri minnihlutahópum múslima eru í haldi kínverskra stjórnvalda. Mannréttindasamtök segja þeim haldið í þrælabúðum, þar sem konur eru þvingaðar í ófrjósemisaðgerð. Kínverjar segja þetta vera endurmenntunarbúðir.