Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

200 milljarðar í „íþróttaþvott“ Sádí-Araba

28.03.2021 - 18:11
epa09094474 A handout photo made available by the Saudi Royal Court shows Saudi Arabia's Crown Prince Mohammed bin Salman bin Abdulaziz Al Saud (C-R) meeting with Chinese Foreign Minister Wang Yi (C-L) in Riyadh, Saudi Arabia, 24 March 2021. Wang is on a six-day regional tour that will take him to Saudi Arabia, Turkey, Iran, United Arab Emirates, Bahrain and Oman.  EPA-EFE/BANDAR ALJALOUD / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - SAUDI ROYAL COURT
Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa varið andvirði hátt í tvö hundruð milljarða króna í íþróttaviðburði og auglýsingasamninga til að bæta ímynd sína og draga athyglina frá mannréttindabrotum. Þetta er niðurstaða rannsóknar á vegum mannréttindasamtakanna Grant Liberty.

Skýrslan kemur út á næstu dögum en fjallað er um niðurstöður hennar á vef Guardian. Þar segir að Sádi-Arabar hafi varið einum og hálfum milljarði dollara á síðustu árum í íþróttaviðburði og auglýsingasamninga við íþróttamenn og félög. Þar á meðal er 650 milljóna dollara samningur við Formúlu eitt kappaksturinn sem tryggði að keppt verði í Sádi-Arabíu í fyrsta skipti, og 500 milljóna dollara samningur við fyrirtæki sem stendur fyrir vinsælum keppnum í fjölbragðaglímu. En einnig samningar um að hnefaleikakeppnir, skákmót, tennismót og veðreiðakeppnir fari fram í landinu, líka 145 milljóna dollara samningur við spænska knattspyrnusambandið og fjöldi annarra samninga.

Þá eru ekki taldar með misheppnaðar tilraunir til að kaupa enska úrvalsdeildarliðið Newcastle og fá þá Cristiano Ronaldo og Lionel Messi til að auglýsa Sádi-Arabíu sem ferðamannastað.

Skýrsluhöfundar segja tilganginn með fjárútlátunum einfaldan. Þau eigi að bæta orðspor Sádi-Arabíu og draga athyglina frá margvíslegum og útbreiddum mannréttindabrotum. Þetta er nokkurs konar íþróttaþvottur, segja skýrsluhöfundar og vísa þar til hugtaksins hvítþvottar.

Leiðrétt 29. mars 2021 Ranglega var sagt að fjárhæðin væri andvirði 2.000 milljarða króna í upphaflegri gerð fréttarinnar. Það hefur verið leiðrétt.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV