Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Skiluðu inn 20 blaðsíðum af athugasemdum til Gæðaráðs

27.03.2021 - 17:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Það hefði átt að gera sterkari faglegan ramma í kring um lögreglunámið í Háskólanum á Akureyri, segir rektor, en undirstrikar að skýrsla Gæðaráðs háskólanna segi ekki alla söguna þar sem skólinn hafi enn ekki skilað úrbótatillögum. Til greina kom að gera formlega athugasemd við úttektina. Gæðaráð íslenskra háskóla segir í skýrslu sinni að víða sé pottur brotinn í framkvæmd lögreglunámsins við HA og takmarkað traust (e. limited cofidence) sé borið til skólans til þess að sinna því.

Segir úttektina ekki gallalausa

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir skýrsluna alls ekki gallalausa. Þetta sé auk þess í fyrsta sinn sem slík skýrsla er gerð á tiltekinni námsbraut og úttektin sjálf hafi verið takmörkunum háð, meðal annars vegna covid. Stjórn háskólans skilaði 20 blaðsíðum af athugasemdum fyrir útgáfu skýrslunnar. Á fundi með gæðaráðinu hafi athugasemdir verið ræddar, en í grunninn allir verið sammála. 

„Og það sem við vorum sammála um í grunninn er að umhverfi námsins er mjög flókið í grunninn, með tveimur ráðuneytum og tveimur stofnunum. Við hefðum getað gert miklu betur í grunninn og ég sem rektor ber ábyrgð á því. Hefðum getað búið til sterkari faglegan ramma í kring um námið.” 

Skila tillögum fyrir 5. maí

Margt hefur verið gagnrýnt við lögreglunámið síðan það hófst. Eyjólfur dregur ekki úr því að það hafi verið áskorun en þróun námsbrautar taki langan tíma. Hann segir ástæðu þess að skólinn gerði ekki formlega athugasemd við úttektina, sem kom til greina, séu þessar þrískiptu niðurstöður: Traust, takmarkað traust eða ekkert traust. Eyjólfur segir að skýrslan geti reynst torskilin þar sem hún sé löng, tæknileg og á ensku. 

Limited confidence þýðir að það þarf að vera til staðar aðgerðaráætlun sem gæðaráðið, ekki úttektarnefndin, sjálft samþykkir. Og við erum að vinna þá vinnu. Og við höfum til fimmta maí til að skila þeirri niðurstöðu. Og gæðaráðið mun svo fjalla um það. Og þá fyrst erum við komin með heildarsýn á um hvað málið snýst, hver eru verkefnin og hvernig við sem stofnun ætlum að bregðast við,” segir hann. „En ég get líka sagt að ég hefði orðið rosalega hissa ef við hefðum fengið cofindence á alla starfsemina í fyrstu umferð. Vegna þess að færa lögreglunám yfir á háskólastig er risamál.”