Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Krabbadýr sem ljómar í myrkri

Mynd: EPA / EPA

Krabbadýr sem ljómar í myrkri

27.03.2021 - 14:00

Höfundar

Við búum í heimi sem dulbýr hluti út í búð sem andleg verðmæti. Samfélagið krefst þess að við látum stjórnast af löngunum okkar, fylgjum draumum okkar og séum í eilífri hamingjuleit. Þá er auðvelt að verða háð eigin hugsunum. Þá er auðvelt að festast í sjálfum sér. En heimurinn er ekki bara til í höfðinu á okkur, heldur líka utan við það. Hvernig getur draumur um krabbadýr í auga hákarls sett okkur í samhengi við víðáttuna, jafnvel óendanleikann en jafnframt verið okkur jarðtenging?

María Elísabet Bragadóttir skrifar:

Það er ýmislegt sem ég hreinlega óttast að líf mitt skorti. Ég get ekki hætt að hugsa um það. Endalaus víðátta af því sem ekki er, teygir úr sér innra með mér. Manneskja getur orðið háð hugsunum sínum. Hún getur gleymt því að heimurinn er ekki bara til inni í höfðinu á henni. Heimurinn er líka til inn í höfðinu á öðru fólki, líka inn í höfðinu á dýrum en það mikilvægasta af öllu: hann er til utan við allar hugsanir. Við þurfum að vera dálítið jarðbundin. Ef það er hægt. Ef það hefur einhverja þýðingu, ég kem að því á eftir. En eitt er víst, að hugsanir eru sleipar eins og sápa, þú vilt handasama þær og jarða þær, eða að minnsta kosti standa þær að verki, segja, þetta er þá það sem þú ert eftir allt saman, þú ert hugsun, en oftar en ekki hrökkva þær í burtu og fjandinn er laus. 

Fólk af minni kynslóð þarf að eiga sér drauma, það þarf að fylgja þeim eftir. Það þarf að vera hamingjusamt. Lífshamingjan er tilgangurinn. Það þarf að óska sér alls mögulegs, og kannski fá óskirnar uppfylltar. Það þarf að reyna að ná sínum persónulegu, ævintýralegu markmiðum. Það þarf að fá það sem það vill fá. En hvað ef þessi eltingaleikur við drauma, gerir ekki annað en að kyrrsetja fólk í eigin huga? Eins og við vitum ekki neitt, nema það eitt, að það sem við viljum, er að fá það sem við viljum. Eins og löngunin sé undirstaða alls þess sem við erum. 

Þegar ég var lítil var ein hugsun sem ég beinlínis óttaðist. Það var ein tiltekin hugsun sem ég taldi að gæti skaðað geðheilsu mína. Í fyrsta bekk var nefnilega sýnd heimildarmynd um alheiminn. Eftirminnilegasta plánetan var auðvitað Venus, með bláum eiturgufum, sem var ógnvekjandi, en það er ekki aðalatriðið, það var ekki hin raunverulega ógn. Í lok tímans sagði kennarinn alvörugefinn: Menn hafa misst vitið af því að hugsa of mikið um stærð alheimsins.

Hún átti við, að hugmyndin væri svo stór, að við gætum ekki áttað okkur á umfangi hennar. Spurningin um eðli og stærð alheimsins hefði ekki skýr endimörk. 

Ég var mjög hrædd um að missa vitið eftir þetta, ég óttaðist að þessi spurning gæti gleypt mig með húð og hári, eins og svarthol. Ég óttaðist að verða innlyksa í eigin höfði með þessari hugmynd. Svo ég streittist þess vegna gegn því að hugsa um stærð alheimsins. Ég varði mikilli orku í að útiloka þá vitneskju að ég væri jarðarbúi og að heimkynni mín væru í raun, sjálfur geimurinn. Oft fann ég að hugsunin var farin að leita á mig, og þá bældi ég hana niður. Ég vildi halda andlegri heilsu.

En það er erfitt þegar þú ert ofhugsari. Þá er erfitt að forðast eina tiltekna hugsun. Það er voða erfitt.

Vegna þess að ég er alltaf í símanum, þá horfi ég í augun á ókunnugri, hraustlegri konu sem horfir á mig á móti, þótt hún sjái mig ekki, og hún tekur sopa úr kakóbolla. Þetta er lífsstílskakó þótt hún segi það ekki upphátt, þú kaupir það í heilsubúðum.

Það er svo mikilvægt, segir konan, að fylgja draumum sínum. Hún brosir. Hún segist vera jarðbundin manneskja, og svo rúllar hún í sundur jógamottu úr korki eða bambus eða einhverju sem hún segir að hafi kostað 20 þúsund krónur en verði í raun ekki metið til fjár, því mottan hafi hjálpað henni að finna andlegt jafnvægi, ná tengslum við jörðina, loksins hafi hún öðlast jarðtengingu. Jarðbundin manneskja. Í andlegu jafnvægi. Með jarðtengingu. Svona geta málefni líðandi stundar kollvarpað skilningi okkar á þekktum frösum, þótt það sé ekki nema um stundarsakir, þótt það sé ekki nema í snöggheitri stemmningu. Hvaða þýðingu hefur það að vera jarðbundin manneskja í landi þar sem jörðin undir fótum okkar ólgar eins og vatn, lyftist og hnígur eins og andadráttur kvíðasjúklings, við liggjum á skjálfandi brjósti þessarar risavöxnu, óútreiknanlegu lífveru, er það ekki skrýtin hugmynd? Aftur að konunni á jógamottunni. Hún segir að veraldlegur auður grafi undan raunverulegri hamingju og því þurfum við að hætta að innrétta heimili okkar, og byrja að innrétta sálina. Tuttugu þúsund krónur sem verða ekki metnar til fjár, ég á við jógamotta sem verður ekki metin til fjár, ég á við lífshamingja sem verður ekki - bíddu. Það þarf sterka fætur til að troða marvaðann í öllum þessum vellystingum. Til þess að drukkna ekki. Til þess að lokast ekki inni. Til þess að kafna ekki. Nú er hætt við því að við fáum innilokunarkennd. Þá er líklega tímabært að kynna aftur til leiks, það sem ég hélt að væri ógn við heilsu mína, hugmyndina um alheiminn, og vísbendinguna um tilvist hans: víðáttuna, sem er ekki innra með okkur, heldur utan við okkur. En fyrst, krabbadýrið. 

Í sjáaldri hákarls við Grænlandsstrendur er að finna ofurlítið krabbadýr. Það lætur lítið fyrir sér fara. Það æpir ekki á athygli. Það bara er, í þessu auga, þessa risavaxna hákarls. Krabbadýrið, eins og aðrir íbúar hafsins, mögulega að höfrungum undanskildum, er ekki athyglissjúkt. Fólk er enda ekki mikið að spjalla um tilvist þessa krabbadýrs eða stórmerkilegt aðsetur þess frá degi til dags. Fólk mætir ekki á kaffistofuna og segir: Jæja, gerðuði eitthvað næs um helgina? Og vissuði að það er til lítið krabbadýr… En þetta eru heldur ekki nýjar fréttir. Norskur sjávarlíffræðingur rannsakaði þetta fyrir einhverjum áratugum síðan. Þetta eru gamlar fréttir. Mér skilst að vísindamenn hafi ekki verið á einu máli um hvort krabbadýrið væri sníkjudýr, hvort það gerði hákarlinum mikinn óleik og eyðilegði hornhimnu hans, eða hvort það hjálpaði hákarlinum að veiða, með því að ljóma í myrkri og laða að sér hraðsynda fiska. Sum djúpsjávardýr búa nefnilega yfir lífljómun. Lífljómun er hugtak sem lýsir eiginleika sumra dýra til að stafa frá sér náttúrulegu ljósi í niðamyrkri. En hvað sem því líður. Þetta dularfulla krabbadýr er til og það á aðsetur í auga hákarls í Norðuríshafssjó. Hugsið ykkur að það sé einfaldlega til, í hafinu. Sama hafi og umlykur eyjuna sem við búum á, það lokar okkur inni en það opnar líka fyrir allar gáttir. Yfir hafinu er himininn, hann er víðáttan í allri sinni ógnvænlegu dýrð. Í víðáttunni hringsóla plánetur, á þeim búa krabbadýr í augum annarra dýra. Þótt ég hafi forðast þessa tilhugsun sem barn, þá finnst mér hún ekki lengur ógnvekjandi.

Við búum í heimi þar sem hlutir úti í búð eru dulbúnir sem andleg verðmæti. Að fylgja eftir draumum sínum verður að furðulegu verkefni. Við þurfum að vera hamingjusöm. Verðum við hamingjusöm af því að láta sífellt stjórnast af löngunum okkar? Fólk getur orðið háð hugsunum sínum. Hugurinn okkar verður heimurinn allur og við læsumst inni í honum. En heimurinn er ekki bara í höfðinu á okkur, hann stendur líka utan við okkur sjálf. Heimurinn, í allri sinni víðáttu, hefur ýmislegt að geyma sem við hvorki viðurkennum né tökum eftir, öðruvísi en að stíga út úr okkur sjálfum. Við getum látið okkur dreyma um krabbadýrið. Ég held að krabbadýrið sé draumur sem við getum elt. Við verðum að gera það. Hugsið ykkur að vera krabbadýr. Hugsið ykkur að geisla í myrkri. Hugsið ykkur að eiga aðsetur í auga annarrar veru, sem er fimm hundruð ára gamalt rándýr. Það er reyndar alls ekki svo fjarstæðukennd hugmynd, er það nokkuð?