Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hundruð kvenna fá bætur frá USC

Mynd með færslu
 Mynd: Ken Lund - Flickr.com
Stjórnendur háskólans í Suður-Kaliforníu, USC, samþykktu í gær að greiða hundruðum kvenna samanlagt yfir einn milljarð dollara í bætur, jafnvirði nærri 130 milljarða króna. Konurnar sökuðu kvensjúkdómalækni skólans um að hafa brotið gegn sér kynferðislega. Gloria Allred, ein lögmanna kvennanna, sagði þetta hæstu sáttagreiðslu í einkamálum er varða kynferðisbrot og kynferðislega áreitni í bandarískum háskólum.

Læknirinn, George Tyndall, var sakaður um fjölda brota á þrjátíu ára ferli sínum við skólann. Þær ná allt aftur til ársins 1990, og eru allt frá því að vera ásakanir um óviðeigandi snertingar yfir í nauðganir. Sú yngsta sem sakaði hann um brot gegn sér var 17 ára gömul. Þá er hann einnig sakaður um að hafa tekið myndir af kynfærum sjúklinga sinna, káfað á brjóstum þeirra og sagt óviðeigandi hluti um vaxtarlag þeirra. Að auki er hann sakaður um rasísk og hómófóbísk ummæli.

Þúsundir fyrrverandi sjúklinga Tyndalls hafa lagt fram kæru gegn skólanum fyrir að bregðast ekki við ásökunum gegn honum. Mál hans voru ekki rannsökuð fyrr en árið 2016, og var honum síðar leyft að fara á eftirlaun. Að sögn AFP fréttastofunnar hlaut hann jafnframt starfslokagreiðslu upp á 200 þúsund dollara, jafnvirði um 25 milljóna króna.

Lögreglan í Los Angeles hóf eigin rannsókn á máli læknisins. Árið 2019 var Tyndall handtekinn og ákærður í mörgum liðum fyrir kynferðisbrot gegn 16 ungum konum. Hann bíður nú réttarhalda. Verði hann dæmdur á hann yfir höfði sér allt að 53 ára fangelsi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV