Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ferðakostnaður, sóttvarnarreglur og fjármálaáætlun

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þingmenn sem sækjast eftir endurkjöri í kosningum fá ekki greiddan ferðakostnað þegar sex vikur eru til kjördags samkvæmt nýju frumvarpi sem nánast öll forsætisnefnd Alþingis leggur fram. Verði frumvarpið samþykkt gildir það fyrir kosningarnar í haust.

Öll forsætisnefnd ásamt áheyrnarfulltrúum, að undanskildum Þorsteini Sæmundssyni, leggur frumvarpið fram en tilgangur þess er að takmarka rétt þingmanna til endurgreiðslu ferðakostnaðar í aðdraganda kosninga.

Þannig megi tryggja jafnræði með þeim og nýjum þingmannsefnum og stjórnmálasamtökum. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis er fyrsti flutningsmaður. 

Skýrsla heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnarreglur

Heilbrigðisráðherra flutti Alþingi í dag munnlega skýrslu um hertar sóttvarnareglur og síðan fóru fram umræður um hana sem snerust að mestu um kaup á bóluefni og stöðu bólusetninga.

Ráðherra upplýsti að von væri á 4800 skömmtum af bóluefni frá Jansen í apríl og hún sagðist hafa haldið að framleiðendur bóluefna væru áreiðanlegri. 

Ráðherra segir afkomu ríkissjóðs miklu betri en í fyrri áætlun

Síðustu tvo daga hafa þingmenn hins vegar rætt fjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára. Áherslubreytingar eru ekki miklar en ráðherra segir afkomu ríkissjóðs rúmlega 130 milljörðum betri en í fyrri áætlun.

Þá eru framlög til loftslagsmála aukin um einn milljarð á ári til 2031. Fjármálaráðherra fagnar jákvæðum teiknum en Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins í fjárlaganefnd segir áætlunina hvorki fugl né fisk. 

„Hér er ríkisstjórn sem er að fara inní kosningar með þúsundir Íslendinga atvinnulausa og fjármálaáætlun sem er metnaðarlaus og leysir engan vanda þannig ríkisstjórn á ekki að styðja.“

Fyrri umræðu lauk í gærkvöld og nú tekur fjárlaganefnd við málinu. Hlé verður nú gert á þingfundum og Alþingi kemur næst saman 12. apríl 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV